Málþing um heimilisleysi

Velferð

""

Málþing verður haldið um heimilisleysi á alþjóðlegum degi heimilisleysis (worldhomelessday.org) 10. október næstkomandi. Þingið er haldið í samvinnu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, Geðhjálpar, SÁÁ og Velferðarvaktarinnar og er yfirskrift þess Samfélag fyrir alla – ábyrgð allra.

Aðalfyrirlesari verður Juha Kaakinen, forstöðumaður Y-Säätiö (Y Foundation) sem er fjórða stærsta húsnæðisfélags Finnlands en Juha er einnig talsmaður stefnunnar Húsnæði fyrst (e. Housing First) í Finnlandi. Finnar hafa náð góðum árangri í baráttunni við heimilisleysi og þykja aðgerðir þeirra til fyrirmyndar.

Á málþinginu verður kynnt vinna velferðarsviðs Reykjavíkur um endurskoðun á stefnu borgarinnar í málefnum heimilislauss fólks. Einnig verður kynnt vinna stýrihóps á vegum félagsmálaráðuneytisins um sama málefni.

Heimilisleysi er vandamál um allan heim. Úrlausn vandans er flókin og krefst viðamikils samstarfs og ítarlegra rannsókna. Um þessar mundir er verið að ljúka mikilvægri vinnu hjá bæði ríki og borg og fjallað verður um hana á málþinginu. 

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, setur málþingið og því lýkur með pallborðsumræðum. 

Vonast er til þess að málþingið marki upphaf af opinni umræðu sem leiði til samstillts átaks gegn heimilisleysi á Íslandi. Öll velkomin.

Dagskrá málþingsins 

Málþingið á Facebook