„Magnað að sjá neistann kvikna aftur í augum fólks“

Velferð

""

Í þróun á heimaþjónustu og heimahjúkrun á velferðarsviði Reykjavíkurborgar er lögð rík áhersla á að bæta og auka við þjónustu í heimahúsi. Fjallað var um árangur af slíkum verkefnum á opnum fundi velferðarráðs, velferðarkaffi, á föstudaginn.

Eitt þeirra nýju verkefna sem í þróun eru á velferðarsviði í samvinnu við heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er teymið SELMA. Það samanstendur af hjúkrunarfræðingum og verkefnastjóra af velferðarsviði og læknum frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

Teymið hefur aðsetur á Læknavaktinni og hefur aðgang að bíl og búnaði. Alla jafna er einn hjúkrunarfræðingur og einn læknir á vakt í einu. Grunnhugmyndin er að hægt sé að forða einstaklingum frá heimsóknum á bráðamóttöku með aukinni þjónustu heima. 

Á fundinum lýstu þær Margrét Guðnadóttir, teymisstjóri verkefnisins, og María Ólafsdóttir, heilsugæslulæknir í Árbæ, verkefnum teymisins. Margrét sagði meðal annars frá könnun sem lögð var fyrir hjúkrunarfræðinga sem starfa í heimahjúkrun á velferðarsviði, eftir að teymið hafði verið starfandi í sex mánuði. Könnunin sýndi mikla ánægju þeirra á meðal með viðbótina. 

75 sinnum komið í veg fyrir ferð á bráðamóttöku

Læknarnir sem tilheyra SELMU hafa sérþekkingu á öldrunarlækningum, bráðalækningum, heilabilun og geðrænum sjúkdómum aldraðra, svo eitthvað sé nefnt. María sagði frá því að að minnsta kosti 75 sinnum á fyrstu sex mánuðum verkefnisins hafi teymið komið í veg fyrir ferð á bráðamóttöku. Hún telur mikla mögulega felast í aukinni þróun á SELMU. „Þetta er einföld nálgun sem hefur mikla möguleika á að leggja þungt lóð á vogarskálirnar. Þetta er mikil hvatning fyrir núverandi kerfi heimaþjónustu og heilsugæslu, því með þessu samstarfi erum ekki að búa til nýtt kerfi, heldur að smyrja hjólin svo þau virki betur.“

Finna styrkleika fólks og vinna með þá

Á fundinum lýsti Valgý Arna Eiríksdóttir, iðjuþjálfi og teymisstjóri, endurhæfingu í heimahúsi sem er fyrir fólk sem hefur þörf fyrir félagslega heimaþjónustu eða heimahjúkrun. Endurhæfingin stendur yfir að hámarki í 3 mánuði, stuðningur er mikill í upphafi en minnkar eftir því sem færni eykst. Aðstoðin er  margvísleg og getur falist í aðstoð við böðun, lyfjagjöf, að klæða sig, fara í félagsmiðstöð eða í sund og þar fram eftir götunum. 

Valgý lýsti því að í upphafi þjónustunnar leggi starfsfólk vinnu í að komast að því hvaða færni skiptir viðkomandi mestu máli að ná upp aftur. Það gefi einstaklingum mikinn kraft að geta aftur gert hluti sem þeir voru hættir að geta gert. „Stundum náum við að draga fram þá styrkleika sem einstaklingarnir hafa alltaf haft en voru jafnvel búnir að gleyma. Það er magnað að sjá neistann kvikna aftur í augum fólks.“

Fundurinn var sendur út í streymi á Facebook-síðu velferðarsviðs.

Hér má lesa meira um þjónustu SELMU og hér má lesa meira um endurhæfingu í heimahúsi