Lýsing á Óðinstorgi tilnefnd til verðlauna

Umhverfi Menning og listir

""

Darc awards verðlaunin eru orðin heimsþekkt en þau vekja athygli á góðri hönnun víðs vegar um heiminn. Það eru tímaritin arc og darc sem standa fyrir verðlaununum en þau fjalla um  hönnun, arkitektúr og lýsingu. Verðlaunin eru veitt fyrir hönnun lýsingar í sex flokkum; byggingum, stöðum, svæðum, viðburðum og hlutum. Í hverjum flokki er tilnefnt í tveimur flokkum eftir því hvort um ódýra eða dýra framkvæmd er að ræða.

Hver sem er getur sent inn sín verk til tilnefningar.  Verkís verkfræðistofa og Basalt arkitektar hönnuðu Óðinstorg og sendu hönnunarverk sitt inn til tilnefningar. Þegar dómnefnd hefur tilnefnt ljósaverk til þátttöku eru vinningshafar í hverjum flokki endanlega valdir af 1.600 hönnuðum og arkitektum. Öll innsend verkefni eru kynnt á heimasíðu Darc awards svo þar verður til einstakt yfirlit yfir ljósahönnun, sem er öðrum innblástur.

Á Íslandi eru vetur langir og dimmir og því skiptir sköpum að hugað sé að lýsingu á torgi eins og Óðinstorgi sem er í hjarta borgarinnar. Verkís hannaði lýsingu torgsins í samvinnu við Basalt arkitekta með íslenskar árstíðir í huga. Lýsingin var meðal þess sem réði úrslitum um hver fékk verkið þegar Óðinstorg fór í útboð hjá borginni.

Horft var til þess að torgið væri aðlaðandi jafnt í dagsbirtu sem rökkri. Mikilvægt var að birtan félli vel að umhverfinu. Tilgangurinn með lýsingunni er að skapa aðlaðandi andrúmsloft jafnvel þegar vetur konungur ræður ríkjum. Lýsingin á Óðinstorgi er því breytileg eftir árstíma og tíma dags.

Það kemur í ljós hverjir hreppa verðlaunin í vor og hvort Óðinstorg verður þeirra á meðal.

Nánar um Darc awards