Losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík 2023

Loftslagsmál

Losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík 2019-2023 Gunnar Hersveinn
Losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík 2019-2023

Samfélagsleg losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík dróst saman milli áranna 2022 og 2023. Hún var 612 þúsund tonn CO2 ígildi árið 2022 og 597 þúsund 2023. Mesta losunin er frá samgöngum og næstmest frá byggingariðnaði. 

Losun gróðurhúsalofttegunda innan borgarmarka Reykjavíkur er tekin saman á hverju ári Samantektin er unnin í samræmi við skilmála vegna þátttöku borgarinnar í Global Covenant of Mayors of Climate and Energy og einnig vegna þátttöku borgarinnar í Evrópusamstarfi um 112 kolefnishlutlausar og snjallar borgir árið 2030. 

 „Eitt allra stærsta viðfangsefni yfirvalda er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og sporna við loftslagsbreytingum en ummerki þeirra er orðin okkur öllum sýnileg víða um heim sem og hér á landi með auknum öfgum í veðurfari,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður umhverfis- og skipulagsráðs.

Reykjavíkurborg er metnaðarfull þegar kemur að grænni þróun. Nýverið var ákveðið að skerpa á markmiðum um samdrátt í losun og stefna að kolefnishlutleysi árið 2030 í tengslum við 112 borga Evrópusamstarfið.

„Mikilvægt er að hafa yfirsýn yfir þróun mála og því er tekin saman þróun samfélagslosunar innan borgarmarkanna sem og losun frá okkar eigin rekstri og við stefnum að enn betri yfirsýn niður á hverja starfsstöð í rauntíma. Nú þarf að bretta upp ermarnar og gefa í,“ segir Dóra Björt.

Losun gróðurhúsalofttegunda í samgöngum

Stærstur hluti losunar gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík á sér stað vegna samgangna, götuumferðar, skipasiglinga og flugs þar sem götuumferð er langstærsti hlutinn eða 263.000 tonn CO2 ígildi. Á heildina litið jókst losun vegna samgangna um 1% á milli ára þó að dregið hafi úr losun vegna götuumferðar um 2,4%. Til að draga úr þeirri losun er áfram unnið að því að 

  • styðja við vistvæna samgöngumáta
  • byggja upp gönguvæna borg og 
  • innviði fyrir heilsueflandi samgöngumáta og orkuskipti. 

Aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum kveður á um að nýskráning einkabíla sem keyra eingöngu á bensíni eða dísil muni verða bönnuð frá og með árinu 2030. Ætla má að orkuskipti muni gerast snemma í Reykjavík þar sem uppbygging innviða fyrir rafmagnsbíla er komin vel á veg. Hlutfall  kílómetra á rafmagnsbílum var um 7,6% árið 2023. 

Nýverið var samþykkt að setja stefnu um gönguvæna borg og undirbúningur að öflugra samgönguneti með samgöngusáttmála Höfuðborgarsvæðisins, almenningssamgöngukerfi. Þá má nefna að Reykjavíkurborg og Kópavogur hafa þegar samþykkt að kynna tillögur að rammahluta aðalskipulags fyrir fyrstu lotu Borgarlínunnar.

Byggingariðnaður losar næst mest

Næst mesta losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík er frá byggingariðnaði. Gagnaöflun um losun frá byggingariðnaði er ný af nálinni og má gera ráð fyrir að aðferðafræði við að meta þá losun muni þroskast eftir því sem fram líður. Umfangsmikil vinna vegna vistvænni mannvirkja hefur farið fram í víðtæku samráði undir hatti samstarfsverkefna stjórnvalda og hagaðila byggingariðnaðarins um vistvænni mannvirkjagerðar sem ber nafnið „Byggjum grænni framtíð“ og er Reykjavíkurborg þátttakandi í því verkefni. 

Reykjavik er vaxandi borg með metnaðarfull áform um fjölgun íbúða og íbúa fram til ársins 2030. Það er því mikilvægt að fylgjast með þeirri losun og grípa til aðgerða svo vöxturinn verði eins lítið á kostnað loftslagsins og umhverfisins og mögulegt er. 

Heildarlosun vegna úrgangs dregst saman

Losun vegna úrgangs hefur í gegnum tíðina verið næst stærsti hluti losunar í Reykjavík en hefur nú hlutfallslega dregist saman. Heildarlosun vegna úrgangs dróst saman á milli ára um 5.000 tonn CO2 ígildi. eða um 8% en bæði urðun og jarðgerð eru tekin fyrir í loftslagsuppgjörinu. 

Urðun á Álfsnesi árið 2023 er 37% af því hámarki sem var náð árið 2018 vegna starfsemi GAJA, sérsöfnun á úrgangsflokkum ásamt því að senda blandaðan úrgang erlendis til brennslu og mun þessi breyting vera enn skýrari núna, en urðun minnkaði um 89% á fyrsta fjórðungi ársins 2024 frá 2023. Aftur á móti mun lækkun í losun vegna urðunarstaðsins ekki dragast saman eins hratt því enn brotnar niður úrgangur sem urðaður var fyrir löngu. 

Loftslagsborgarsamningar í íslensku samfélagi

Reykjavíkurborg var valin til þátttöku í Evrópusamstarfi ásamt ríflega hundrað öðrum borgum um að verða kolefnishlutlaus árið 2030. Hluti af þessu verkefni er að gera samkomulag, svokallaðan loftslagsborgarsamning við hina ýmsu aðila í íslensku samfélagi um það hvernig hægt er að ná þessu markmiði saman. 

Aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og verða kolefnishlutlaus er víðtækt samstarfsverkefni sem er verið að vinna að með loftslagsborgarsamningnum.

Hugmyndin er að Evrópuborgirnar 112 sem taka þátt í verkefninu verði miðstöðvar nýsköpunar og rannsókna svo aðrar borgir Evrópu geti lært af reynslunni til að verða kolefnihlutlausar árið 2050.