Loftslagsviðurkenning Reykjavíkurborgar og Festu afhent

Umhverfi

""

Klappir Grænar Lausnir hf fékk Loftslagsviðurkenningu Reykjavíkurborgar og Festu en það er hugbúnaðarfyrirtæki sem vinnur að þróun og innleiðingu hugbúnaðarlausna í umhverfismálum.

Við valið á sigurvegaranum var m.a. horft til mikilvægis nýsköpunar, árangurs við að draga úr eigin losun gróðurhúsalofttegunda og ekki síst áhrifamáttarins sem felst í að bjóða lausnir sem gera öðrum kleift að bæta umhverfisfótspor sitt með margvíslegum hætti.

Klappir Grænar Lausnir

Klappir Grænar Lausnir hf er hugbúnaðarfyrirtæki sem vinnur að þróun og innleiðingu hugbúnaðarlausna í umhverfismálum þ.e. umhverfisstjórnunarlausnir. Lausnir og aðferðafræði Klappa gerir viðskiptavinum félagsins kleift að tryggja lögfylgni við umhverfislöggjöf, minnka notkun orku og vatns, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og myndun úrgangs, en miða jafnframt að því að draga úr rekstrarkostnaði viðskiptavina og auka nýtingu hráefna og annarra framleiðslu- og þjónustuþátta. Klappir leggja einnig áherslu á að draga úr losun í eigin rekstri, nota rafbíla, almenningssamgöngur og hjól og nýta sér fjarfundabúnað í stað þess að fljúga. Klöppum hefur tekist að draga úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í eigin rekstri.

Tilnefningar

Aðrir sem voru tilnefndir að þessu sinni og fengu einnig viðurkenningu voru ÁTVR, Efla verkfræðiskrifstofa og IKEA.

ÁTVR rekur rúmlega 50 Vínbúðir um allt land. ÁTVR hefur unnið markvisst að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í eigin rekstri og mæla sótspor á innfluttum vörum. Sem dæmi stefnir fyrirtækið að minni losun gróðurhúsalofttegunda með kaupum á rafbíl, vöruflutningar eru straumlínulagaðir og hefur starfsfólk verið hvatt til umhverfisvænna samgangna. Nýlega var gerð lífsferilsgreining sem sýndi að mestu munar um umbúðir, þ.e. gler í vörusafni þegar horft er til sótspors. Verið er að undirbúa útreikninga á sótspori vöru svo viðskiptavinir geti bráðlega séð kolefnisspor umbúða á vöruspjaldi.

EFLA er þekkingarfyrirtæki sem veitir sérfræðiráðgjöf. Umhverfisstjórnun hefur verið samofin starfsemi EFLU allt frá árinu 2004 þegar EFLA varð eitt af fyrstu fyrirtækjum landsins til að fá vottun á umhverfisstjórnun skv. ISO 14001 staðlinum. Dæmi um nokkrar aðgerðir Eflu til að draga úr kolefnisspori í rekstri er að bjóða starfsfólki aðgang að rafbílum en rúmlega 30% bílaflota Eflu eru rafbílar, starfsmenn eiga kost á rafmagnshjólum og markvisst er unnið að því að fjölga þeim sem koma með vistvænum hætti til vinnu. Auk þess að vinna markvisst í minnkun kolefnisspors í innri starfsemi EFLU hefur fyrirtækið áhrif til góðs í loftslagsmálum í gegnum 1400 verkefni um uppbyggingu og þróun samfélagsins sem fyrirtækið vinnur að á hverjum tíma.

IKEA á Íslandi starfar að mörgu leyti samkvæmt umhverfisstefnu IKEA á heimsvísu, en hefur þar að auki sett sér eigin stefnu og markmið um minnkun losunar. IKEA hefur látið setja upp sólarsellur sem framleiða næga orku til að hlaða rafbíla starfsfólks, starfsfólki og viðskiptavinum eru boðin hleðslustæði og rafhjól.

Líf Magneudóttir formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs afhenti viðurkenninguna á árleguum loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar sem fór fram í Kaldalóni í Hörpu í morgun. Líf var í dómnefnd ásamt  Ernu Eiríksdóttur fulltrúa Festu og Guðrúnu Pétursdóttir fulltrúa Háskóla Íslands. Guðmundur B. Friðriksson skrifstofustjóri umhverfisgæða á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar var dómnefndinni til ráðgjafar og starfsmaður var Hrönn Hrafnsdóttir sérfræðingur á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.