Loftlagsmál og sjálfbær þróun á borði borgarstjóra Norðurlandanna

Umhverfi

""

Loftlagsmál og sjálfbær þróun eru í brennidepli Norrænna borgarstjóra sem sitja höfuðborgarráðstefnu og Urban Future ráðstefnuna í Ósló um þessar mundir.

Loftslagsmál og sjálfbær þróun er meginþema á ráðstefnunni Urban Future Global Conference. Norrænum borgarstjórum og fulltrúum sveitarstjórnar gefst þar tækifæri til þess að ræða þróun borga með sjónarmið Norðurlandanna að leiðarljósi.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fjallaði m.a. um hitaveituvæðingu í Reykjavík í pallborði borgarstjóra Norðurlandanna. Hann sagði hitaveituna hafa verið risastórt og djarft skref sem heppnaðist afar vel og það hafi gefið Reykjavíkurborg forskot á aðrar borgir í heiminum. Stærsta verkefni borgarinnar nú væru samgöngur til að tryggja minni útblástur gróðurhúsalofttegunda og bæta loftgæði.

Þá sagði Dagur að sumar ákvarðanir sem hafi verið teknar á undanförnum árum á borð við hjólastíga, fækkun bílastæða og eflingu almenningssamgangna geti stundum verið óvinsælar fyrst um sinn - en eru þegar allt kemur til alls, það eina rétta í stöðunni. 

Orkuskipti í samgöngum væri rétt skref en stóra verkefnið væri að breyta ferðavenjum fólks. Þá væru lífsgæði í borginni og heilsa íbúanna samofið þéttri byggð þar sem auðveldara er að ferðast á vistvænan hátt.

Nánari upplýsingar um ráðstefnurnar