Loftgæði slæm í nágrenni við umferðargötur

Heilbrigðiseftirlit Íþróttir og útivist

""

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur varar fólk sem þjáist af öndunarfærasjúkdómum og börn við að vera mikið úti í nágrenni við miklar umferðargötur vegna lélegra loftgæða sem stafar af kyrru veðri og þurru á höfuðborgarsvæðinu. Veðurstofa Íslands spáir svipuðu veðri á morgun. 

Styrkur svifryks (PM10) og köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) hefur verið hár það sem af er degi 27. nóvember og verður líklega yfir heilsuverndarmörkum í Reykjavík í nágrenni við miklar umferðargötur og jafnvel víðar í borginni.  Einnig hafa komið toppar í styrk brennisteinsvetnis (H2S).  Í dag er hægur vindur og kalt, götur þurrar og engar líkur á úrkomu. Á morgun er búist við svipuðu veðri og því von á áframhaldi á frekar lélegum loftgæðum.  

Sólarhrings heilsuverndarmörkin fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra og fyrir köfnunarefnisdíoxíð eru þau 75 míkrógrömm á rúmmetra.

Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum og börn ættu að forðast útivist  í nágrenni stórra umferðargatna.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Hægt er að fylgjast með styrk svifryks og annarra mengandi efna hér. Þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík. Loftgæðafarstöðvar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eru nú staðsettar við leikskólann Grænuborg við Eiríksgötu og við Hringbraut 26.