Lóðarvilyrði fyrir leiguíbúðir verkafólks og stúdenta í Skerjafirði

Framkvæmdir Skipulagsmál

""

Félagsstofnun stúdenta og Bjarg, byggingafélag verkalýðshreyfingarinnar, fá lóðir undir 260 íbúðir í Skerjafirði

Félagsstofnun stúdenta  og Bjarg íbúðafélag hafa fengið lóðarvilyrði til að byggja 260 leiguíbúðir fyrir stúdenta og félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar í Skerjabyggð við Skerjafjörð. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Guðrún Björnsdóttir framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ skrifuðu undir samkomulög þess efnis í dag.

Skipulagssamkeppni var haldin um skipulag í Skerjafirði og er verið að vinna að deiliskipulagstillögu á grundvelli  hennar. Um er að ræða landsvæði sem opnaðist sem byggingarland þegar litlu flugbrautinni var lokað. 

„Það er mjög ánægjulegt að geta staðfest uppbyggingu stúdenta og verkalýðshreyfingarinnar á þessu nýja byggingarlandi í Skerjafirði. Þetta er mikilvæg viðbót við mikla uppbyggingu byggingafélaga án hagnaðarsjónarmiða sem nú á sér stað í borginni. Stúdentar eru nú að byggja 244 íbúðir við Sæmundargötu og þessar 160 í Skerjafirði ættu að geta farið í byggingu strax í kjölfarið. Sömu sögu er að segja af Bjargi, byggingarfélagi verkalýðshreyfingarinnar sem mun verða komið af stað með 611 íbúðir í byggingu í árslok. Þessar 100 í Skerjafirðinum verða góð viðbót við það enda er skortur á leiguíbúðum á viðráðanlegu verði,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. 

Bjarg sem er íbúðafélag verkalýðshreyfingarinnar hefur fengið vilyrði fyrir lóð þar sem leyft verður að byggja 100 íbúðir.

Þann 12. mars 2016 gerðu ASÍ og Reykjavíkurborg viljayfirlýsingu um að Reykjavíkurborg myndi útvega lóðir fyrir byggingu 1000 leiguíbúða fyrir félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar á næstu fjórum þar á eftir. Þegar hefur verið veitt vilyrði og úthlutað lóðum fyrir 489 íbúðir sem eru 89 íbúðir umfram það sem yfirlýsingin kveður á um fyrir árin 2016 og 2017. Að auki mun Bjarg byggja félagslegar leiguíbúðir fyrir Félagsbústaði.

Á þessu ári verður alls úthlutað lóðum fyrir 300 íbúðir Bjargs.

160 stúdentaíbúðir

Borgarráð hefur einnig samþykkt lóðarvilyrði til Félagsstofnunar Stúdenta sem heimilar byggingu 160 íbúða í Skerjafirði.  Vilyrðið byggir á samningi milli Reykjavíkurborgar, Félagsstofnunar stúdenta og Háskóla Íslands um að útvega 250 nemendaíbúðir á öðrum þéttingarreitum nálægt miðborg utan við háskólasvæðið.

Með lögum 52/2016 um almennar íbúðir var ákveðið að sveitarfélög og ríki gætu komið að fjármögnun íbúða á leigumarkaði með framlögum til sjálfseignastofnana eða lögaðila sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 52/2016 um almennar íbúðir. Félagsstofnun stúdenta er slík sjálfseignarstofnun.

Bjarg íbúðafélag hefur þegar hafist handa við byggingu 155 íbúða við Móaveg í Grafarvogi, 83 íbúðir við Urðarbrunn í Úlfarsárdal og 80 íbúðir við Kirkjusand.

Félagsstofnun stúdenta byggir nú 244 stúdentaíbúðir við Sæmundargötu á lóð Vísindagarða sem munu verða stærstu stúdentagarðar landsins. Alls hafa verið samþykkt áform fyrir um 1.340 stúdentaíbúðir.