Ljósmyndasamkeppni í tilefni Dags íslenskrar náttúru | Reykjavíkurborg

Ljósmyndasamkeppni í tilefni Dags íslenskrar náttúru

miðvikudagur, 10. september 2014

Í tilefni Dags íslenskrar náttúru þann 16. september efnir Reykjavíkurborg til ljósmyndakeppni meðal grunnskólanema þar sem viðfangsefnið er „Náttúran í borginni – hið kunnuglega og hið óvænta“. Verðlaun verða veitt fyrir áhugaverðustu myndirnar.

  • ""
    Náttúran er alls staðar í borgarlandinu.

Á degi íslenskrar náttúru 16. september er hollt að staldra við og njóta náttúrunnar, velta fyrir okkur fjölbreytileikanum, dást að ólíkum formum, litum, áferð, hljóðum og lykt og síðast en ekki síst átta okkur á þeim fjölmörgu og verðmætu gildum sem felast í náttúrunni og mikilvægi þess að hlúa að velferð hennar.

Í tilefni dagsins efnir Reykjavíkurborg til ljósmyndakeppni þar sem viðfangsefnið er „Náttúran í borginni – hið kunnuglega og hið óvænta“. Grunnskólabörn geta sent ljósmyndir sínar í keppnina og verðlaun verða veitt fyrir áhugaverðustu myndirnar. Þema keppninnar er: Náttúran er alls staðar.

Í borgarlandslaginu mætist hið manngerða og hið villta.Til dæmis má stundum finna fjölbreytt lífríki á bílastæðum, umferðareyjum, veggjum húsa o.s.f.v. Það gleður augað að sjá gróður vaxa upp úr sprungu í stéttinni, fugla á ljósastaurum og hunangsflugur flögra milli blómapotta á svölunum.

Hvar leynist líf í þínu nágrenni? Farðu í leiðangur og festu hið óvænta á mynd.

Hægt er að senda inn mynd á þrjá vegu:
1. Þú getur tekið myndina á símann þinn með Instagram og þarft aðeins að merkja hana #reykjavikurborg #natturudagur. Láttu lýsingu fylgja með sem myndatexta þ.e. „Type your caption here“. Athugaðu að myndirnar skila sér EKKI í keppnina ef hakað er við "Photos are private" í "Photo privacy" í stillingum Instagram. Einnig þarf að haka við einn af möguleikunum fimm (Facebook, Twitter, Foursquare, Tumblr eða Flickr) í "Sharing settings" áður en myndin er send.
2. Þú getur sett myndina á fésbókarvegg Reykjavík-iðandi af lífi: https://www.facebook.com/reykjavikidandi. Athugaðu að láta lýsingu fylgja með sem myndatexta og að myndin sé merkt #natturudagur.
3. Senda má inn myndir á netfangið: idandi@reykjavik.is


Allar myndir sem berast fyrir miðnætti sunnudaginn 21. september teljast gildar í keppninni. Niðurstöður verða kynntar þegar valnefnd hefur farið yfir þær og verðlaun veitt í Ráðhúsi Reykjavíkur. Myndirnar verða til sýnis á fésbókarsíðu Reykjavík-iðandi af lífi. Frekari upplýsingar eru á vefsíðu verkefnisins.