Ljósaslóð og fræðandi skemmtigöngur lýsa upp náttmyrkrið á Vetrarhátíð 2022
Vetrarhátíð 2022 fer fram með breyttu sniði dagana 3.-6. febrúar. Áhersla verður lögð á ljóslistaverk utandyra og á útilistaverk í borgarlandinu. Ljósaslóð Vetrarhátíðar verður í lykilhlutverki en það er slóð ljóslistaverka sem liggur um miðborgina.
Ekki verður um neina formlega opnun að ræða á hátíðinni né heldur fjölmenna viðburði. Fólk er hvatt til þess að skoða verkin á sínum eigin hraða og virða sóttvarnarreglur sem í gildi eru. Safnanótt og sundlauganótt hefur verið aflýst.
Ljósaslóð Vetrarhátíðar
Ljósaslóð Vetrarhátíðar lýsir upp skammdegið á skapandi hátt og myndar skemmtilega gönguleið frá Hallgrímskirkju niður á Austurvöll og að Ráðhúsi Reykjavíkur. Rúmlega 20 ljóslistaverk lýsa upp leiðina öll kvöld hátíðarinnar frá kl. 18:30-22. Óvænt ljóslistaverk birtast vegfarendum á veggjum, í gluggum og í húsasundum og er ljósaslóðin unnin í samvinnu við hina seyðfirsku hátíð List í ljósi sem vakið hefur athygli jafnt innanlands sem utanlands síðustu ár.
Ofbirta á Hallgrímskirkju
Verkið Ofbirta er eftir hönnuðinn og myndlistarkonuna Mörtu Sigríði Róbertsdóttir. Verk Mörtu bar sigur úr býtum í samkeppni um ljóslistaverk á Vetrarhátíð sem Reykjavíkurborg í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs efndi til. Í verkinu reynir listamaðurinn að fanga stemmninguna yfir jól og áramót þegar Íslendingar mótmæla skammdeginu með því að skreyta umhverfi sitt og búa til sín eigin listaverk í gluggum og görðum. Verkið er unnið í þrívíddarforriti sem þar sem ljósbrotum er stjórnað með tilviljanakenndum hreyfingum svo að útkoman verður aldrei fullkomlega fyrirsjáanleg.
LIFANDI VOTLENDI í Ráðhúsi Reykjavíkur
Lifandi votlendi (Living Forest) er eftir listakonuna Katerinu Blahutova. Gestir standa frammi fyrir þeirri áskorun að bjarga deyjandi vistkerfi, framræstu votlendi sem gefur frá sér allt að tveimur þriðju hluta allra gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Til að halda vistkerfinu á lífi þarf að bregðast hratt við og með því að vinna saman geta gestir endurheimt votlendi. Lifandi Votlendi er uppblásið, gagnvirkt listaverk sem vekur athygli á mikilvægi votlendis í gegnum þátttöku og fjáröflun. Allur ágóði rennur til Votlendissjóðs, sjálfseignarstofnunar sem hefur það hlutverk að draga úr losun koltvísýrings og endurheimta líf og líffræðilegan fjölbreytileika í votlendi.
Fræðandi skemmtigöngur í mögnuðu myrkri
Á leið um ljósaslóðina er tilvalið að leggja leið sína um útilistaverkin á höfuðborgarsvæðinu og fræðast um tilurð þeirra. Hægt er að hlaða niður sérstöku appi Listasafns Reykjavíkur og kynna sér öll útilistaverk Reykjavíkurborgar. Reykjavík bókmenntaborg býður upp á fríar bókmenntagöngur í miðborginni og vesturbænum í appi sem hægt er að hlaða niður. Boðið er upp á leiðsögn um bókmenntaslóðir í borginni á íslensku, ensku, spænsku, þýsku og frönsku. Viltu fræðast um slóðir Halldórs Laxness í miðbæ Reykjavíkur eða fara í glæpasagnagöngu í miðbænum, fræðast um landnámið eða kynna þér hinsegin bókmenntir? Það er um nóg að velja.
Kópavogskirkja verður upplýst í tilefni Vetrarhátíðar með nýju verki eftir Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur myndlistarmann föstudags- og laugardagskvöldið 4. – 5. febrúar. Í Hafnarfirði verður lögð áhersla á útiveru og upplifun og boðið upp á fjölbreytta dagskrá. Á Seltjarnarnesi verða Gróttuviti og Seltjarnarnesskirkja upplýst í litum Vetrarhátíðar.
Dagskrá Vetrarhátiðar 2022 má nálgast á vetrarhatid.is
Munum að virða sóttvarnir og eins metra regluna.