Ljóð fyrir Úkraínu

Ljóð fyrir Úkraínu - dagskrá í Ráðhúsi Reykjavíkur

Reykjavík bókmenntaborg UNESCO og PEN á Íslandi, samtök rithöfunda, þýðenda og ritstjóra sem vilja standa vörð um tjáningarfrelsið, standa fyrir ljóðadagskrá í Ráðhúsi Reykjavíkur til stuðnings Úkraínu á alþjóðadegi ljóðsins, mánudaginn 21. mars 2022.

Dagskráin stendur frá kl. 18 – 20.

Fimmtán skáld flytja ljóð eftir úkraínsk skáld, íslensk og af öðru þjóðerni. Einnig verða sýndar ljósmyndir eftir úkraínska ljósmyndarann Yevgeny Dyer, sem býr í Reykjavík.

Alexandra Briem, forseti borgarstjórnar, og Anna Liebel, sem er frá Kiyv en býr í Reykjavík, flytja ávörp. Rithöfundurinn Sjón sem er formaður PEN á Íslandi kynnir.

Listamennirnir gefa vinnu sína en Bókmenntaborgin styður hjálparstarf í Úkraínu í stað greiðslu skáldalauna og hvetur öll sem geta til að gera slíkt hið sama.

Skáldin sem koma fram eru Anton Helgi Jónsson, Brynja Hjálmsdóttir, Natasha Stolyarova, Hallgrímur Helgason, Mazen Maarouf, angela rawlings, Haukur Ingvarsson, Kristín Svava Tómasdóttir, Þórarinn Eldjárn, Fransesca Cricelli, Aaiún Nin, Þórdís Helgadóttir, Jakub Stachowiak, Eydís Blöndal, Brynjólfur Þorsteinsson og Emil Hjörvar Petersen.

Bókmenntaborgin og PEN á Íslandi vonast til að sjá sem flesta á staðnum til að sýna samstöðu með úkraínskri þjóð í verki en dagskránni verður einnig streymt á Facebook-síðu Bókmenntaborgarinnar fyrir þau sem ekki komast á viðburðinn.

Þess má geta að borgirnar Lviv, Odessa og Kharkiv eru systurborgir Reykjavíkur í samtökum Skapandi borga UNESCO, Lviv og Odessa eru Bókmenntaborgir líkt og Reykjavík og Kharkiv er Tónlistarborg UNESCO. Bókmenntaborgin og PEN senda kollegum í þessum borgum og úkraínskri þjóð samstöðu- og baráttukveðjur og fordæma innrás Rússlands í Úkraínu.

Öll velkomin