Litahlaup, gleðiganga og fjör

Mannréttindi Skóli og frístund

Regnbogahlaup Tjarnarinnar 2023.

Fjórir skólar sameinuðust í gleðigöngu

Börn úr fjórum skólum og leikskólum endurtóku leikinn frá því í fyrra og fóru í gleðigöngu til að fagna fjölbreytileikanum í vikunni. Skólarnir eru Hof, Laugasól, Laugarnesskóli og Laugalækjarskóli og eru allir regnbogavottaðir. Þátttakendur voru öll leikskólabörnin, 1. og 2. bekkur í Laugarnesskóla og 7. bekkur í Laugalækjarskóla alls voru þetta um 500 nemendur. Hóparnir fóru frá skólalóðunum og mættust í Laugardalnum og fóru inn á gervigrasvöll Þróttar. Þar beið blái pollinn, Heiðar tónlistarmaður í Pollapönki og tók nokkur lög fyrir hópinn. Fjölmargir foreldrar bættust í hópinn og átti hópurinn góða stund á vellinum í þokkalegu skjóli og meira að segja sólin lét sjá sig á meðan.

Bjuggu til eigin regnbogafána

Í leikskólanum Rauðhól, stærsta leikskóla borgarinnar, var fjölbreytileikanum fagnað á alþjóðadegi gegn fordómum í garð hinsegin fólks, 17. maí. Öll börn gerðu sinn eigin regnbogafána og allur hópurinn fór í skrúðgöngu um hverfið sitt, Norðlingaholt. Samtal voru það um 200 börn á aldrinum 1-6 ára sem gengu í skrúðgöngunni, sungu, blésu sápukúlur og höfðu gaman saman. Leikskólinn er regnbogavottaður sem Magnea Arnar, deildarstjóri segir mikilvægt í baráttunni gegn fordómum.

Jusu litadufti yfir hlauparana

Frístundaheimili Tjarnarinnar fóru í regnbogahlaup á Ægissíðunni og á Klambratúni þann 17. maí. Krakkarnir hlupu ákveðna vegalengd á meðan starfsfólk jós yfir þau litadufti, sem er táknræn athöfn til að sýna stuðning við fjölbreytileikann. Hlaupið er til að fagna öllu litrófi mannlegs fjölbreytileika og sýna að það er rými fyrir öll í starfinu okkar og líka til að vekja athygli á því að öll frístundaheimili Tjarnarinnar eru regnbogavottuð. Að hlaupinu loknu var boðið upp ís, tónlist og sápukúlufjör fyrir börnin áður en haldið var til baka.

Hátíð í Furuskógi

Dagurinn var líka haldinn hátíðlegur í leikskólanum Furuskógi þar sem föndur í anda regnbogafánans og hinsegileikans var í fyrirrúmi.