Listahátíðin List án landamæra hlýtur Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar 2012

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, afhenti fulltrúum Listahátíðarinnar List án landamæra Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar við hátíðlega athöfn í Höfða í dag á mannréttindadegi Reykjavíkurborgar. Mannréttindaverðlaunin eru veitt þeim einstaklingum, félagasamtökum eða stofnunum sem hafa á eftirtektarverðan hátt staðið vörð um mannréttindi tiltekinna hópa. Markmiðið með mannréttindadeginum er að vekja athygli á málefnum sem varða  mannréttindi og á mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.

Listahátíðin List án landamæra var fyrst haldin á Evrópuári fatlaðra árið 2003 og hefur verið haldin árlega. Markmið hátíðarinnar er að bæta aðgengi, fjölbreytni og jafnrétti í menningarlífinu, að leita nýrra tækifæra ekki takmarkana. Þá kemur hátíðin list fólks með fötlun á framfæri og kemur á samstarfi milli fatlaðs og ófatlaðs listafólks. Sýnileiki ólíkra einstaklinga er mikilvægur, bæði í samfélaginu og í samfélagsumræðunni.

Dagur B. Eggertsson sagði við afhendingu Mannréttindaverðlaunanna að þessi List án landmæra væri vel að viðurkenningunni komin. Það gætu ekki allir orðið miklir listamenn en góðir listamenn gætu komið hvaðanæva að því listin þekkti engin landamæri.

Margrét M. Norðdal, framkvæmdastýra hátíðarinnar, tók við Mannréttindaverðlaununum fyrir hönd Listahátíðar án landamæra. Verðlaunin er höggmynd eftir Ragnhildi Stefánsdóttur, myndlistarmann.