Gul viðvörun á höfuðborgarsvæðinu en búist er við fljúgandi hálku og því mikilvægt að fara varlega.
Vetrarþjónusta Reykjavíkur sinnti verkefnum í nótt sökum úrkomu. Gul viðvörun hefur verið gefin út á ný sem tekur gildi fyrir hádegi og stendur yfir í tólf tíma. Eftir hlákuna í nótt mun kólna aftur í dag og það skapar varhugaverðar aðstæður í húsagötum, sérstaklega fyrir gangandi vegfarendur, sem ættu að nýta sér hálkuvarnir á skófatnað.
Hláka síðasta sólarhrings hefur skapað erfiðar og varhugaverðar aðstæður vegna hálku í húsagötum og á göngu- og hjólastígum en vetrarþjónusta borgarinnar vinnur að söltun stíganna.
Veðurspáin fyrir höfuðborgarsvæðið hljómar svona: Suðvestan 13-18 m/s, él og kólnandi veður, frost 0 til 3 stig í kvöld. Líkur eru á skafrenningi og lélegu skyggni. Akstursskilyrði munu því versna eftir því sem líður á daginn með samgöngutruflunum.
Vetrarþjónusta borgarinnar mun leggja áherslu á að halda aðalleiðum opnum en ítrekað er að fólk fari varlega á ferðum sínum í dag.