Um 7000 unglingar í grunnskólum Reykjavíkur tóku þátt í líflegri og vel heppnaðri umræðu um seinkun skólabyrjunar í morgun. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Dr. Erla Björnsdóttir sérfræðingur í svefni, og Ólöf Kristín Sívertsen hjá fagskrifstofu grunnskóla tóku samtalið við unglingana í skólunum í gegnum fjarfundabúnað.
Mikilvæg lýðræðisþátttaka
Fundurinn var mikilvæg æfing í lýðræðislegri þátttöku og góður lokapunktur á þeirri vinnu sem hefur verið í gangi en seinkun skólabyrjunar hefur verið til skoðunar um nokkurt skeið. Þær tilraunir sem hafa verið gerðar gefa góða raun en Vogaskóli hefur til dæmis þegar seinkað skólabyrjun og þar er almenn ánægja með breytinguna. Aðrir skólar hafa prófað að seinka byrjun skóladagsins einn dag í viku og hefur það sömuleiðis gengið vel. Í haust hefur starfshópur unnið að því að móta tillögur að fyrirkomulagi seinkunarinnar og í starfshópnum eru meðal annarra þrír fulltrúar ungmenna.
Flest vilja að skólinn hefjist seinna á morgnana
Unglingarnir svöruðu fimm spurningum á fundinum um svefn og skólabyrjun og af svörunum má sjá að yfirgnæfandi meirihluti vill byrja skóladaginn seinna. Til viðbótar við spurningar sem nemendur svöruðu í sínum snjalltækjum komu krakkar úr mörgum skólum hugmyndum og skoðunum á framfæri beint. Þó að flest væri hlynnt fyrirhuguðum breytingum komu einnig fram sjónarmið um að halda skólabyrjun óbreyttri og höfðu einhver áhyggjur af því hvaða áhrif slík breyting myndi hafa á íþróttir og tómstundir. Meðal þeirra radda sem virkilega voru fylgjandi breytingunni sáu fyrir sér fleiri gæðastundir með fjölskyldunni á morgnana og bættan námsárangur og önnur töldu mikilvægt að foreldrar og unglingar myndu áfram passa upp á svefntíma.
Spurningarnar og svörin við þeim voru eftirfarandi:
- Finnst þér þú fá nægan svefn?
55% sögðu já
45% sögðu nei - Finnst þér erfitt að vakna á morgnanna?
Oft svöruðu 46%
Stundum svöruðu 27%
Sjaldan svöruðu 13%
Aldrei svöruðu 14% - Byrjar skólinn of snemma?
Já sögðu 58%
Nei sögðu 42% - Finnur þú fyrir þreytu á morgnana í skólanum?
Oft svöruðu 44%
Stundum svöruðu 28%
Sjaldan svöruðu 15%
Aldrei svöruðu 14% - Klukkan hvað myndir þú vilja að skóladagurinn byrjaði?
8:10 sögðu 17%
8:30 sögðu 22%
8:50 sögðu 61%
Ráðlagður svefn er 8-10 klukkustundir
Ráðlagður svefntími hjá unglingum á aldrinum 14-17 ára eru 8-10 klukkustundir á sólarhring. Þrátt fyrir aukna vitundarvakningu um mikilvægi svefns þá hafa rannsóknir sýnt að margir unglingar sofa of lítið og það hlutfall þeirra sem eru ekki að ná fullum nætursvefni eykst milli ára. Á sama tíma sýna rannsóknir að andleg líðan þeirra fer versnandi en þekkt eru tengsl svefns og andlegrar heilsu.
Huga þarf að samspili skóla og tómstunda
Niðurstöður fundarins og könnunar sem send verður til kennara í næstu viku verða nýttar til að útfæra seinkun á upphafi skóladagsins. Til hliðsjónar verða rannsóknir um áhrif þessa á svefn unglinga sem þarf að útfæra í takt við Menntastefnu Reykjavíkurborgar, Látum draumana rætast, svo breytingarnar styðji við nám, lýðheilsu og góðan skólabrag.
Hugað verður að því að ekki verið gengið á skipulagt skólastarf eða ákvæði í námskrá. Það er til dæmis hægt að gera með nánara samspili skóla- og frístundastarfs og þeirra sem veita frístundaþjónustu eins og íþróttafélög. Eins þarf að huga að hvernig breytingarnar geti komið til móts við óskir skólastjórnenda og starfsfólks um undirbúningstíma fyrir eða eftir skipulagðan skóladag.
Borgarráð samþykkti í sumar að grunnur yrði lagður að þessum breytingum. Hér má sjá fundargerð borgarráðs og niðurstöður svefnrannsóknarinnar.