Liðsauki í sjálfstæðri búsetu

Velferð

""

Í gær var formleg opnun á nýju húsnæði Liðsaukans að Borgartúni 6 en Liðsaukinn er sólarhringsþjónusta á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Teymið sem starfar í Liðsaukanum veitir ungu fólki sem er  í sjálfstæðri búsetu margháttaðan stuðning. Um er að ræða notendur með flóknar þjónustuþarfir, oft   þroskahömlun og geðrænan vanda. Viðkomandi einstaklingar hafa ekki getað nýtt sér önnur þjónustuúrræði sem skyldi, svo sem búsetukjarna.

Markmiðið með Liðsauka er að efla færni einstaklinga til að búa sjálfstætt á eigin heimilum og stuðla að virkri þátttöku þeirra í samfélaginu, hvort sem það er að aðstoða þá við að finna sér vinnu eða nám við hæfi eða auka virkni þeirra í frístundum.

Starfsemin hefur verið efld frá því sem var með auknu fjármagni og mun veita 18 einstaklingum þjónustu en nú þegar fá 13 einstaklingar liðsauka sem búa víðs vegar um borgina. Fjöldinn samsvarar íbúum í þremur búsetukjörnum.

Einnig er þjónustan við þennan viðkvæma hóp aukin, meðal annars með næturvakt. Þá er þjónustan einstaklingsbundnari en verið hefur. Hjá Liðsauka munu starfa 25 starfsmenn í 23,5 stöðugildum. Forstöðumaður er Sigmar Þór Ármannsson.

,,Við erum mjög ánægð með þessa aðstöðu fyrir þennan mikilvæga hóp starfsmanna“ segir Regína Ásvaldsdóttir sviðsstjóri og segir að starfið sé afar krefjandi þar sem starfsfólk þarf að fara inn á heimili fólks í aðstæður sem séu oft erfiðar og þá sé mikilvægt að hafa sterkt faglegt bakland eins og Liðsaukinn er.