Leitað að nýju húsnæði fyrir Konukot
Reykjavíkurborg auglýsir eftir hentugu húsnæði fyrir Konukot, sem er neyðarskýli fyrir heimilislausar konur. Núverandi húsnæði er óhentugt og brýn þörf á að finna starfseminni nýjan stað.
Konukot er eitt þriggja neyðarskýla í Reykjavík. Félagasamtökin Rótin reka Konukot með þjónustusamningi við Reykjavíkurborg. Í Konukoti er grunnþörfum kvenna sem þangað leita sinnt hvað varðar húsnæði, hreinlæti og mat. Neyðarskýlið er opið frá klukkan 17 síðdegis til klukkan 10 morguninn eftir. Þar er boðið upp á heita kvöldmáltíð og léttan morgunverð og þar geta konurnar þvegið fatnað og notað hreinlætisaðstöðu.
Æskilegt er að húsnæðið sé staðsett miðsvæðis í borginni og að það sé notalegt og snyrtilegt. Þar þarf jafnframt að vera gott aðgengi, meðal annars með þarfir fatlaðs fólks í huga. Húsnæðið þarf að vera að lágmarki 350 m2. Þar þarf að vera hægt að útbúa gistiaðstöðu fyrir að minnsta kosti 12 íbúa, starfsmannaaðstöðu fyrir 2–4 starfsmenn, auk sameiginlegra rýma.
Nánari upplýsingar um þær kröfur sem gerðar eru til húsnæðisins.