Leiksvæði í Grafarvogi og Vesturbæ endurnýjuð

Umhverfi Mannlíf

Drengur í klifurgrind á sólardegi

Borgarráð hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna sex opinna leiksvæða í Grafarvogi og Vesturbæ.

Um er að ræða endurgerð leiksvæða við Berjarima, Flétturima, Hrísrima, Frostaskjól, Granaskjól og Öldugötu. Endurgerðin felur í sér landmótun, endurnýjun gróðurbeða, leiktækja og yfirborðsefna eftir þörfum. Áhersla er lögð á öryggismál, betri fallvarnarefni, bætta lýsingu og aðgengi fyrir alla. Endurgerðin tekur mið af leiksvæðastefnu Reykjavíkurborgar og unnið er með hugmyndafræði snjallvæðingar.

Áætlað er að framkvæmdir hefjist í júní og verði lokið í september 2019. Kostnaðaráætlun hljóðar upp á 120 milljónir króna.