Leiksskólagjöld verða felld niður vissa daga

Skóli og frístund

Leikskólamynd

Leikskólagjöld verða felld niður hjá öllum börnum í leikskólum Reykjavíkurborgar alla virka daga í dymbilviku, í vetrarleyfum grunnskóla og á milli jóla og ný árs. Tillagan sem kemur frá sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs var samþykkt í borgarráði í dag.

Munu þurfa að skrá börnin sérstaklega í vistun

Þurfi börn að sækja leikskóla þessa daga verða foreldrar að skrá börnin sín sérstaklega og greiða fyrir vistunina samkvæmt gjaldskrá leikskóla. Boðið verður upp á að skrá börn staka daga innan tímabils. Breytingin tekur gildi 1. september 2024 og reglum um leikskólaþjónustu verði breytt til samræmis við framangreint.

Mun auðvelda skipulag mönnunar

Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra lagði fram bókun þegar málið fór fyrir skóla- og frístundaráð þar sem fram koma að leikskólastjórar fagni tillögunni. Erfitt hefur verið að áætla mætingu barna í leikskóla þessa daga þar sem margir tilkynna fjarvistir seint og myndi betri vitneskja nýtast við skipulag mannauðs og reksturs. 

Nánar um dagana sem þarf að sækja sérstaklega um vistun:

Dymbilvika – virkir dagar vikuna fyrir páska. Næstu páska eru það 14. – 16. apríl.
Vetrarfrí grunnskóla – virkir dagar sem skráðir eru vetrarfrí grunnskóla samkvæmt samþykktu skóladagatali. Skólaárið 2024 – 2025 eru dagarnir sem um ræðir 24., 25. og 28. október 2024 og og 24. og 25. febrúar 2025.
Milli jóla og nýárs – allir virkir dagar þar á milli. Í ár eru það 27. til 30. desember.