Leiguhúsnæði fyrir tekjulágar fjölskyldur

Framkvæmdir Skipulagsmál

""
Alþýðusamband Íslands og Reykjavíkurborg skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu á 1000 íbúðum á næstu fjórum árum. ASÍ mun í tilefni af 100 ára afmæli sínu standa fyrir stofnun almenns íbúðafélags, leggja fram nauðsynlegt stofnfé og leita til aðildarfélaga sinna um nauðsynlega rekstrarfjármögnun. Reykjavíkurborg mun leggja til lóðir vegna uppbyggingarinnar.
 
Markmið félagsins er að bjóða upp á ódýrt leiguhúsnæði fyrir tekjulágar fjölskyldur og einstaklinga. Unnið verður að uppbyggingunni í samræmi við samþykktir ASÍ í húsnæðismálum, samþykktir almenna íbúðafélagsins, húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar, leiðarljósa borgarráðs um Nýju Reykjavíkurhúsin og samningsmarkmið Reykjavíkurborgar um ný uppbyggingarsvæði.

Verkalýðshreyfingin og Reykjavíkurborg hafa verið lykilsamstarfsaðilar þegar hefur komið að átaki í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og má þar nefna verkamannabústaðina við Hringbraut og Breiðholti ásamt íbúðum í Ártúnsholti og víðar. Áratugir eru síðan verkalýðshreyfingin hefur komið með jafn beinum og afgerandi hætti að uppbyggingarverkefnum í borginni og í jafn nánu samstarfi við borgaryfirvöld. 

Viljayfirlýsingin sem hér er samþykkt verður unnin á grundvelli væntanlegra laga um almennar íbúðir, sem nú liggur fyrir Alþingi og er háð fyrirvara um samþykkt þess og samþykki stjórnvalda vegna stofnframlags ríkisins.

„Þessi yfirlýsing markar tímamót. Það eru áratugir síðan verkalýðshreyfingin hefur komið að byggingu húsnæðis á viðráðanlegu verði með jafn afgerandi hætti. Það er sérstakt fagnaðarefni. Áformin falla fullkomlega að húsnæðisstefnu og húsnæðisáætlun borgarinnar sem miðar að uppbyggingu fjölbreytts húsnæðis á viðráðanlegu verði. Oft var þörf en nú er nauðsyn,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri
 
„Eins og umræða um húsnæðismálin hefur þróast var orðið ljóst að ef verkalýðshreyfingin beitti sér ekki í því að koma á fót íbúðafélagi sem biði tekjulágum fjölskyldum upp á ódýrar leiguíbúðir þá myndi enginn gera það. Þess vegna ákváðum við að verða aftur virkir þátttakendur á húsnæðismarkaði eins hreyfingin var svo lengi á síðustu öld. Að fá lóðir undir 1000 íbúðir frá borginni inn í verkefnið reið baggamuninn. Án þess hefði þetta varla verið gerlegt,“ segir Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ.