Leigjendur Brynju fá greitt

Velferð

""

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar greiddi í dag  323,4 mkr. til 423 einstaklinga sem áttu rétt á afturvirkum húsaleigubótum. Auk greiðslu á sérstökum húsaleigubótum sem námu 203,7 mkr. voru greiddir dráttarvextir að upphæð 119, 7 mkr.

Borgarráð samþykkti þann 3. maí síðastliðinn að fela velferðarsviði Reykjavíkurborgar að afgreiða kröfur um greiðslu sérstakra húsaleigubóta fyrir tímabilið 1. júní 2012 til 31. desember 2016 frá leigjendum Brynju – Hússjóði Öryrkjabandalags Íslands, á grundvelli dóms Hæstaréttar í máli nr. 728/2015, án tillits til þess hvort umsókn hafi legið fyrir. Auk þess var lagt til að dráttarvextir yrðu greiddir til þeirra sem ættu rétt á greiðslum sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann án þess að gerð væri sérstök krafa um það.

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar sendi öllum þeim leigjendum sem gætu hafa átt rétt á bótum bréf í byrjun nóvember.  Annars vegar var einstaklingum tilkynnt að þeir ættu rétt á greiðslu sérstakra húsaleigubóta og dráttarvaxta aftur í tímann ásamt útreikningi auk tilkynningu um greiðsludag. Hins vegar var einstaklingum tilkynnt að þeir ættu ekki rétt og þeim kynntur réttur sinn til rökstuðnings og heimild til að áfrýja ákvörðun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs.

Þess má að lokum geta að af þeim  rúmlega 500  einstaklingum, sem áttu rétt á greiðslu sérstakra húsaleigubóta aftur í tímann, eru  80 einstaklingar látnir. Unnið er að því að fá upplýsingar varðandi umsjónarmenn dánarbúa eða lögerfingja og vonast velferðarsvið borgarinnar til þess að hægt verði að ljúka þeim greiðslum sem allra fyrst.

Þann 25. október 2018 samþykkti borgarráð hækkun á fjárhagsáætlun velferðarsviðs vegna afturvirkra greiðslna sérstakra húsaleigubóta ásamt dráttarvöxtum. Talið er að heildargreiðslur til einstaklinga auk staðgreiðslu af dráttarvöxtum geti numið allt að 400 mkr.