Legóþjarkar og þrautir í fjarkennslu – Sumarsmiðjur kennara með nýju sniði

Covid-19 Skóli og frístund

""

Á tímum Covid-19 þarf að grípa til nýstárlegra kennsluaðferða, einnig í símenntun kennara sem m.a. fer fram í svokölluðum Sumarsmiðjum í ágúst.

Metaðsókn var í Sumarsmiðjurnar að þessu sinni og höfðu 900 reykvískir kennarar skráð sig á meira en 40 námskeið 12. og 13. ágúst. En þegar hert var á sóttvarnaraðgerðum í byrjun mánaðarins þurfti að endurskipuleggja flest námskeiðin í stað þess að fella þau niður.  

Sveinn Bjarki Tómasson og Jórunn Pálsdóttir, kennarar við Melaskóla, sem kenna námskeiðið Leikur að læra með Legó, voru ekki lengi að finna nýja leið til að halda sitt námskeið. Þau ætla að kenna það í fjarkennslu í Google-meet miðvikudaginn 12.ágúst  og vera bæði með sýnikennslu og fræðilegan fyrirlestur.

Þau Sveinn Bjarki og Jórunn hafa notað Legó-kubba í kennslu í meira en tvo áratugi og stuðst við klassíska kennslufræði. Þannig hafa þau víðtæka reynslu í því að samþætta námsgreinar í margvíslegri vinnu með Legó-kubbana. Má þar t.d. nefna kennslu í upplýsingatækni og forritun, stærðfræði- og náttúrufræðihugtökum, hönnun og skrifum.

Þau Sveinn Bjarki og Jórunn voru að undirbúa fjarnámskeiðið í Melaskóla dag og afhentu þau á annan tug kennara legó-kubbasett sem þeir munu hafa með sér heim og vinna með á meðan á námskeiðinu stendur. Kennararnir munu læra grunnatriði í forritun fyrir legóþjarka og leysa ýmis verkefni. „Við erum ótrúlega spennt fyrir þessu“, segja þau Jórunn og Sveinn Bjarki. „Við sjáum sóknarfæri í nýju kennslufyrirkomulagi og ætlum að leggja meiri áherslu á sýnikennslu með myndavélinni. Þetta verður bara gaman.“

Fræðast má um kennslu í legó á vef Melaskóla.

Frekari upplýsingar um breytt fyrirkomulag á Sumarsmiðjum eru á menntastefnuvefnum. Þar má sjá hvaða námskeið verða staðbundin, hver verða með fjarfundasniði og hverjum hefur verið frestað um óákveðin tíma.