Reykjavík hefur ákveðið að vera skjólborg fyrir landflótta rithöfund frá Bangladesh. Reykjavíkurborg mun tryggja rithöfundinum Nailu Zahin Ana öruggan dvalarstað og efnahagslegt öryggi á meðan hún dvelst hér. Þetta er þriðji rithöfundurinn sem Reykjavíkurborg tekur á móti.
Reykjavíkurborg gerðist aðili að ICORN (International Cities of Refuge Network) árið 2010.
ICORN eru samtök borga víðs vegar um heim sem gerst hafa skjólborgir rithöfunda sem ekki er gert kleift að búa í heimalandi sínu. Borgirnar leggja með því móti sitt að mörkum til þess að stuðla að tjáningarfrelsi einstaklingsins .
Rithöfundurinn heitir Naila Zahin Ana, bloggari og aktívisti, fædd árið 1995 í Bangladesh. Ana hefur verið virk í skrifum á bloggsíðum og í fjölmiðlum í heimalandi sínu. Árið 2013 tók hún virkan þátt í Shahbag mótmælunum í Bangladesh ásamt þúsundum annarra en mótmælin snéru að ákvörðun stjórnvalda um að dæma til dauða aðila sem tekið hafði þátt í vopnaðri baráttu gegn stjórnvöldum árið 1971(Bangladesh Liberation War). Í skrifum sínum fjallaði Ana m.a. um kynjajafnrétti, femínisma, trúleysi og stjórnmál. Ana var neydd til að hætta háskólanámi og varð að fara í felur um mitt ár 2016 þar sem öryggi hennar var ógnað. Frá árinu 2016 hafa fimm félagar hennar verið drepnir og stjórnvöld hafa ekki getað veitt Önu nægilega vernd.
Ana óskar eftir að hefja háskólanám hérlendis í haust.
Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar heldur utan um verkefnið líkt og áður ásamt starfshópi sem borgarstjóri skipaði í júní 2014.