Lán frá Þróunarbanka Evrópuráðsins tryggir áframhaldandi uppbyggingu skólahúsnæðis
Fjármál Skóli og frístund
Einar Þorsteinsson borgarstjóri og Carlo Monticelli bankastjóri Þróunarbanka Evrópuráðsins undirrituðu í dag 100 milljóna evra lán sem gerir Reykjavíkurborg kleift að halda áfram umfangsmiklu viðhaldsátaki í skólahúsnæði borgarinnar.
Undirritunin fór fram í aðdraganda 57. sameiginlega fundar Þróunarbanka Evrópuráðsins sem hefst í dag og íslensk stjórnvöld standa að í ár en þar koma saman fulltrúar hluthafa og æðstu stjórnenda bankans.
Hundrað milljóna evra lán Þróunarbanka Evrópuráðsins til Reykjavíkurborgar verður varið í viðamikið viðhald og uppbyggingu sem mun tryggja Reykvíkingum öruggt og heilsusamlegt skólahúsnæði. Með þessu átaki verður skólahúsnæði fært í nútímalegt horf þar sem aðstaða til kennslu og lærdóms verður í takt við það sem best verður á kosið í nútímakennslufræðum á öllum stigum náms frá leikskóla til loka grunnskóla.
Endurbætur fjármagnaðar með láni Þróunarbankans miða að því að veita betra aðgengi að menntun og traustara námsumhverfi fyrir alla nemendur. Fjárfestingarnar munu gagnast tæplega 22.500 börnum í Reykjavík, þar á meðal fjölskyldum innflytjenda, úkraínsku flóttafólki og þeim 200 fjölskyldum sem misstu nýlega heimili sín vegna eldsumbrota við Grindavík. Fyrirhugaðar fjárfestingar koma til framkvæmda á tímabilinu 2023-2028 og nemur heildarkostnaðurinn 223 milljón evrum.
„Undirritunin í dag er merkur áfangi í langvarandi samstarfi okkar við Reykjavíkurborg og Ísland. Þetta 100 milljón evra lán mun bæta gæði og öryggi skólahúsnæðis í Reykjavík svo að bjóða megi upp á nútímalegt námsumhverfi sem nauðsynlegt er fyrir unga fólkið okkar sem er að vaxa úr grasi,“ sagði Carlo Monticelli bankastjóri.
„Þessi lánasamningur styður okkur í að halda áfram mikilvægu viðhaldsátaki og uppbyggingu á skólahúsnæði í borginni og endurspeglar forgangsröðun okkar í meirihlutanum í þágu skólamála. CEB er traustur banki og mikilsmetinn samstarfsaðili og það skiptir máli að borgin hafi fleiri lánakosti en þá sem bjóðast hérlendis. Við erum afar ánægð með að þessum áfanga hafi verið náð sem mun koma barnafjölskyldum í Reykjavík og starfsfólki til góða;” sagði Einar Þorsteinsson, borgarstjóri.
Lán Þróunarbankans er í takt við þau markmið sem sett eru fram í Menntastefnu Reykjavíkur 2030 - Látum draumana rætast sem og í viðhaldsátaki á húnsæði leikskóla, grunnskóla og frístundar 2022 - 2028 þar sem lögð er áhersla á að efla aðstöðu til menntunar og hlúa að mannauði með bættri menntun og starfsþjálfun
Árið 2024 markar tímamót í samstarfi Íslands og Þróunarbanka Evrópuráðsins. Auk þessa láns til Reykjavíkurborgar er verið að skoða tvö önnur lán til að fjármagna viðbragð vegna eldsumbrota og endurbætur á innviðum sveitarfélaga.
Ísland er eitt átta stofnríkja Þróunarbanka Evrópuráðsins. Frá árinu 1956 hefur Þróunarbankinn samþykkt 10 verkefni á Íslandi og veitt lán upp á meira en 400 milljónir evra. Þar á meðal hafa tvö verið veitt Reykjavíkurborg.
Dagana 6. til 8. júní heldur ríkisstjórn Íslands árlegan sameiginlegan fund Þróunarbanka Evrópuráðsins sem er hápunktur starfsárs bankans. Viðburðurinn færist milli aðildarríkjanna 43. Umræður sameiginlega fundarins þetta árið snúa helst að hlutverki Þróunarbankans í að styðja aðildarríki í hamfarastjórnun og viðbrögðum við loftslagsbreytingum.
Gagnlegir hlekkir
Þróunarbanki Evrópuráðsins ǀ 57. Sameiginlegi fundurinn ǀ Verðlaun Þróunarbankans fyrir félagslega samheldni