Lagning ljósleiðara um Kjósarhrepp

Framkvæmdir Mannlíf

""

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, starfandi borgarstjóri og Karl Magnús Kristjánsson, oddviti Kjósarhrepps  hafa undirritað samstarfssamning um lagningu ljósleiðararöra frá Kiðafelli í Kjós til Grundarhverfis á Kjalarnesi.

Verkefnið er til komið vegna þarfa Kjósarhrepps um tengingu við grunnkerfi ljósleiðara í Grundarhverfi. Þar sem Reykjavíkurborg hyggst fara sömu leið með ljósleiðara í verkefni um ljósleiðaravæðingu dreifbýlis Reykjavíkur skapast samlegðaráhrif, sem væri góður kostur að nýta.

Kjósarhreppur hefur allt frumkvæði að verkefninu og mun sjá um útboð og eftirfylgni með því. Hlutur Reykjavíkurborgar er að fá lagningu rörs fyrir fyrirhugaðan ljósleiðara í áður nefndu verkefni um ljósleiðaravæðingu dreifbýlis Reykjavíkur, bera helming heildarkostnaðar á móti Kjósarhreppi, veita leyfi til að fara um borgarland og aðstoða við samskipti við landeigendur á fyrirhugaðri leið. Áætlaður heildarkostnaður verkefnisins er kr. 15.000.000. Upphæðin rúmast innan gildandi fjárhagsáætlunar. Reykjavíkurborg hyggst sækja um styrk frá Ísland ljóstengt 2018 vegna verkefnisins.