Lækjartorg í hönnunarsamkeppni

Samgöngur Umhverfi

""

Reykjavíkurborg og Félag íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA) efna til hönnunarsamkeppni um Lækjartorg og aðliggjandi gatnarými. Óskað er eftir þátttakendum í forval vegna fyrirhugaðrar samkeppni. Öllum er frjáls þátttaka í forvalinu en innan teymanna þarf þó að vera að minnsta kosti einn landslagsarkitekt og einn arkitekt.

Rými fyrir fólk að leiðarljósi í hönnun

Samkeppnin er hönnunarsamkeppni með forvali og er í tveimur þrepum. Markmið samkeppninnar er að fá fram frjóar og áhugaverðar hugmyndir um hönnun Lækjartorgs og nærliggjandi gatna.

Samkeppnissvæðið nær yfir Lækjartorg, Lækjargötu frá Hverfisgötu að Austurstræti, Austurstræti frá Lækjargötu að Ingólfstorgi og Bankastræti frá Þingholtsstræti að Austurstræti.

Lýst er eftir tillögum að hönnun sem hefur rými fyrir fólk að leiðarljósi. Hönnun skal vera í samræmi við stefnumörkun borgaryfirvalda eins og hún birtist í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Einnig þarf að hafa til hliðsjónar meðal annars útfærslu Borgarlínustöðvar úr frumdragaskýrslu Borgarlínu, skýrsluna Gólfið í Kvosinni og tillögu að nýju umferðarskipulagi Kvosarinnar.

Meginmarkmið

Mikilvægt er að til sé mjög skýr áætlun og hönnun fyrir umrætt svæði sem ýti undir að mannlíf og rekstur geti blómstrað og dafnað á svæðinu til framtíðar.

  • Styrkja skal svæðið sem kjarnasvæði sem gleður augað og hvetur til jákvæðra samskipta á milli mismunandi aldurs- og þjóðfélagshópa.
  • Draga fram  sögu svæðisins með áhugverðum hætti.
  • Skapa rými sem henta öllum árstíðum.
  • Ná fram  heildstæðu yfirbragði þar sem hið gamla mætir hinu nýja á sannfærandi hátt.
  • Skapa öruggt borgarumhverfi fyrir alla.
  • Gera grein fyrir vörulosun, hleðslustöðvum og staðsetningum deilihjóla og öðrum götugögnum.
  • Taka mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni.
  • Styðja við og styrkja nýja og  núverandi starfsemi á götuhliðum jarðhæða sem snúa að samkeppnissvæðinu.
  • Skapa rými sem eru sveigjanleg, að þau rúmi fjölsótta viðburði og uppákomur en séu jafnframt vistleg hversdagslega.

Þrjú teymi valin til þátttöku

Forvalsnefnd  fer yfir umsóknir sem berast og velur þrjú teymi til þátttöku á síðara þrepi samkeppninnar á grundvelli mats og neðangreindra skilagagna sem óskað er eftir þ.e. ferilskrá, kynningarmöppu og sýn eða lýsingu teyma á verkefninu. Hæfni sem telst til virðisauka er til dæmis hönnun á almenningsrýmum innan borga og bæja.

Fyrir liggja drög að samkeppnislýsingu og verða keppnisgögn afhent völdum teymum. Mun hvert teymanna þriggja fá greiddar kr. 5.000.000 kr. án vsk. fyrir sínar tillögur, auk þess er verðlaunafé 2.000.000 kr. án vsk. fyrir vinningstillögu.

Á fyrra þrepi samkeppninnar skila keppendur eftirfarandi gögnum. Nánari lýsing kemur fram í drögum að samkeppnislýsingu:

  1. Skjal með nöfnum og titlum þátttakenda ásamt ferilskrá allra meðlima teymis. Óskað er eftir að mynduð séu þverfagleg teymi og í hverju teymi skal vera að minnsta kosti einn arkitekt og einn landslagsarkitekt.
  2. Kynningarmappa (portfolio) með verkefnum teymismeðlima sem þykja sambærileg, það er reynslu allra meðlima af hönnun á almenningsrýmum og nefna dæmi (minnst fjögur dæmi) og reynslu af lýsingarhönnun (minnst tvö dæmi).
  3. Greinargerð – stutt lýsing (að hámarki 500 orð) á sýn teyma á samkeppnissvæðið ásamt því sem lýsingin skal studd með hugmyndaborði (moodboard) fyrir svæðið. Teymið skal lýsa þeirri aðferða- og hugmyndafræði sem það mun nálgast verkefnið og frumhugmyndir fyrir svæðin þrjú.

Dómnefnd skipa:

Björn Axelsson, skipulagsfulltrúi, formaður dómnefndar.

Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi.

Orri Steinarsson, arkitekt og skipulagsfræðingur.

Hlín Sverrisdóttir, landslagsarkitekt, FÍLA.

Heba Hertervig, arkitekt, AÍ.

Verkefnisstjóri samkeppninnar og ritari samkeppninnar er:

Rebekka Guðmundsdóttir, deildarstjóri fyrir hönd deildar borgarhönnunar, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Trúnaðarmaður dómnefndar er Hermann Georg Gunnlaugsson, landslagsarkitekt, FÍLA.

Skil umsókna og helstu dagsetningar

Umsóknum skal skilað rafrænt af teymisstjóra hönnunarteymis á ritara samkeppninnar á netfangið; rebekka.gudmundsdottir@reykjavik.is fyrir kl. 16.00 þann 13. ágúst 2021.

Stefnt er að því að niðurstöður forvals verði tilkynntar 27. ágúst 2021 og að samkeppnin geti hafist 01. september 2021. Skil á tillögum eru áætluð 24. nóvember. Dómnefnd metur innsendar tillögur að loknu seinna þrepi og tilkynnir hvaða tillaga hlýtur 1. verðlaun. Áætlað er að dómnefnd ljúki störfum þann 15. desember 2021 og verða þá úrslit tilkynnt.

Ítarlegar upplýsingar má nálgast í samkeppnislýsingu um Lækjartorg og nágrenni.