Lægstu launin hækki mest

Atvinnumál

""

Samninganefnd Reykjavíkurborgar lýsir miklum vonbrigðum með að ekki hafi náðst meiri árangur á samningafundi dagsins með samninganefnd Eflingar.

Jafnframt lýsir samninganefndin furðu á þeirri tilraun forystu Eflingar til að draga í efa framkomin tilboð borgarinnar um verulegar kjarabætur fyrir starfsfólk Eflingar hjá Reykjavíkurborg. Leiðarljós borgarinnar í yfirstandandi viðræðum er að hækka sérstaklega lægstu laun með sérstaka áherslu á laun kvennastétta.

Samninganefnd Reykjavíkurborgar ítrekar það tilboð um hækkun launa á leikskólum sem gert var opinbert í lok síðustu viku. Samkvæmt því verða meðaldagvinnulaun almennra starfsmanna í leikskólum 460.000 kr. á mánuði með álagsgreiðslum og hjá deildarstjórum innan Eflingar í leikskóla  verða mánaðarlaunin 572.000 kr. með álagsgreiðslum í lok samningstíma takist samningar á grundvelli tillagna Reykjavíkurborgar.

Mikilvægt er að draga fram að launahækkanir í tillögu Reykjavíkurborgar eru að meðaltali yfir 30% til félagsmanna Eflingar. Þá liggur fyrir eindreginn vilji borgarinnar að stytta vinnuviku starfsfólks. Að auki liggur fyrir tillaga um fjölgun orlofsdaga í 30 á ári hjá öllu starfsfólki Reykjavíkurborgar.

Sem dæmi um þær hækkanir sem öðrum stórum starfsstéttum hjá Eflingu standa til boða samkvæmt tillögum borgarinnar myndu meðaldagvinnulaun almenns starfsmanns í heimaþjónustu hækka úr 337.000 í 441.000 kr.  Með álagsgreiðslum yrðu launin 496.000 kr. í lok samningstíma.

Veruleg stytting vinnuviku starfsfólks í vaktavinnu

Vinnuvika starfsfólks í vaktavinnu styttist að lágmarki um 4 klukkustundir samkvæmt tillögu Reykjavíkurborgar.   Þannig gæti vinnutími starfsmanns í búsetuþjónustu styst um 20 klst. á mánuði sem felur í sér fækkun vakta um 2-3 vaktir í mánuði. Jafnframt fela  tillögur Reykjavíkurborgar í sér að regluleg laun starfsmanns í búsetuþjónustu verði 608.000 kr. í lok samningstímans og hækki að meðaltali um 33%.

Launahækkanir á samningstíma fara eftir tímasetningum Lífskjarasamningsins.