
Inngilding í leikskólastarfi er aðal viðfangsefni Be-in Erasmus verkefnis sem tveir leikskólar í Reykjavík taka þátt í ásamt leikskólum frá Portúgal og Belgíu.
Verkefnið sem kallast Be-in og gengur út á þátttöku allra barna og fjölskyldna í almennu leikskólastarfi. Meðal annars er lögð áhersla á að efla foreldrasamstarf og að hvetja þau til að hafa áhrif á leikskólastarfið. Hluti af verkefninu er að fylgjast með störfum (job shadowing) í leikskólunum erlendis og að erlendu leikskólarnir geri það sama í heimsóknum sínum á Íslandi.
Alls eru leikskólarnir sex auk háskóla og starfsmanns frá hverri borg sem tekur þátt. Frá Íslandi eru eru það leikskólarnir Suðurborg og Múlaborg, Háskóli Íslands og skóla- og frístundasvið Reykjavíkur sem eru þátttakendur í verkefninu. Hinar borgirnar eru Gent í Belgíu og Águeda í Portúgal.
Nýta tækifærið og koma uppeldisfræðslu til fullorðna fólksins
Starfsfólk Suðurborgar fór nýverið til Águeda í Portúgal þar sem áhersla er á inngildingu barna úr Roma fjölskyldum. Roma fólk býr víða í Evrópu og stendur gjarnan fyrir utan samfélög landanna sem þau búa í. Starfsfólk leikskólans hefur unnið traust Roma fólksins í einu þorpinu og leggur áherslu á að fá börn þeirra inn í leikskólann og opna þannig fyrir þátttöku fólksins og barnanna í samfélaginu. Með því móti gefst þeim einnig færi á að koma uppeldisfræðslu til fullorðna fólksins. Starfsfólk Suðurborgar er afar þakklátt fyrir lífsreynsluna sem var engu öðru lík. Eins segjast þær hafa verið stoltar þegar þær kynntu sitt starf fyrir starfsfólkinu frá belgíska leikskólanum og eru sannfærðar um að þær fari heim á ný með ný verkfæri í farteskinu.
Næsta skref í verkefninu verður tekið í október þegar starfshópar frá öllum þátttökulöndunum hittast hér á landi.