Kynning á aðgerðaráætlun gegn hávaða

Samgöngur

""

Kortlagningar hávaða fyrir Reykjavíkurborg er endurskoðuð á 5 ára fresti skv. reglugerð nr. 1000/2005. Aðgerðaáætlun fyrir borgina fyrir árin 2018-2023 er byggð á niðurstöðum kortlagningarinnar og hefur nú verið kynnt í borgarstjórn. Hún er nú í kynningu fyrir almenning.

Góð hljóðvist í borg er lýðheilsumál og skiptir feikilega máli í lagi í þéttri byggð. Árangursrík leið til að draga úr hávaðamengun í borginni er að draga almennt úr umferðarhraða og efla vistvæna ferðamáta og vistvænar samgöngur.

Niðurstöður hávaðakortlagningarinnar gefa upplýsingar um hversu margar íbúðir og íbúar verða fyrir áhrifum vegna umferðarhávaða. Fjöldi íbúa í Reykjavíkurborg sem búa við umferðarhávaða yfir 55-65 dB er áætlaður vera um 35.500 manns. Niðurstöður hávaðakortlagningar sýna að hjá 62 skólum eða leikskólum var hávaði yfir 55 dB og þar af voru 11 þeirra yfir 65 dB.

Efling almenningssamgangna lækkar hljóðstig

Reykjavíkurborg hóf árið 1997 að veita fjárstyrki til úrbóta á hljóðvist til íbúa sem höfðu hljóðstig ≥ 65 dB(A) við húsvegg. Úrbótum er ætlað að draga úr þeim fjölda íbúa sem búa við óviðunandi hljóðstig innandyra þannig að hljóðstig innanhúss verði ekki hærra en 30 dB(A). Íbúðir með jafngildishljóðstig hærra en LAeq24 = 65 dB(A) (utan við húsvegg) er skipt í þrjá flokka og er fjárstyrkur breytilegur milli flokka, (lægri fjárhæð eftir því sem hljóðstigið er lægra).

Lækkun hljóðstigs með hljóðvörnum eða byggingartæknilegum lausnum. A) Svæði þar sem hljóðvarnir hafi áhrif fyrir mikinn fjölda íbúa. B) Svæði þar sem hljóðstig utan við vegg er yfir Leq = 65 dB(A) og ekki er auðsótt að koma fyrir hljóðvörnum. C) Efling almenningssamgangna einkabílsins lækkar einnig hljóðstig og fjölmargt annað.

Kortlagning og aðgerðaáætlun eru skilagögn til Umhverfisstofnunar og Evrópusambandsins og eru birt á vefsíðu Umhverfisstofnunar eftir kynningar- og samþykktarferli hjá borginni.

Næstu skref felast í því að leita til almennings. Aðgerðaáætlun er nú kynnt íbúum. Endurskoðun hávaðakortlagningar verður gerð næst árið 2022 og aðgerðaáætlunar árið 2023.

Næstu fimm árin verður horft til svæða þar sem umferðarhávaði veldur íbúum verulegu ónæði og reiknast yfir 68 dB (desibel), t.d. á stöðum þar sem byggð er í nágrenni við stofnbrautir. Hljóðvarnaraðgerðir verða metnar og framkvæmdar eftir því sem aðstæður og fjárveitingar leyfa.

Aðgerðaáætlun þessi mun vera til kynningar á tímabilinu 1. desember 2018 – 15. janúar 2019, og borgarbúum og öðrum hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera skriflegar athugasemdir við áætlunina.

Tengill 

Aðgerðaráætlun gegn hávaða

Kortlagning hávaða