Kynbundinn launamunur minnkar enn hjá Reykjavíkurborg | Reykjavíkurborg

Kynbundinn launamunur minnkar enn hjá Reykjavíkurborg

föstudagur, 27. apríl 2018

Greining Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á kynbundnum launamun hjá Reykjavíkurborg á launum í október 2017 leiðir í ljós að dregið hefur úr leiðréttum kynbundnum launamun frá síðustu úttekt sem gerð varð árið 2015.

  • Borgartún 12-14
    Borgartún 12-14 en skrifstofur fagsviða borgarinnar eru þar til húsa. Rannsókn sýnir að enn dregur úr kynbundnum launamun hjá Reykjavíkurborg.

Munurinn var þá 3,5% körlum í vil en er nú 2,2%, þegar litið er til uppreiknaðra heildarlauna þeirra sem eru í a.m.k. 70% starfi. Þegar litið er til grunnlauna hjá sama hópi má sjá að hann var 3,1% körlum í vil árið 2015 en er nú 2,2%.  Óleiðréttur launamunur grunnlauna sama hóps er nú 2% konum í vil en óleiðréttur launamunur heildarlauna er 7% körlum í vil.

Mikill meirihluti starfsmanna Reykjavíkurborgar, eða tæplega 5.000, taka laun samkvæmt starfsmati. Niðurstöður greiningarinnar staðfesta mikilvægi starfsmatskerfisins í baráttunni gegn kynbundnum launamun en óleiðréttur  launamunur starfsfólks sem tekur laun skv. starfsmati er 0,3% konum í vil  á meðan munurinn er  6,0% körlum í vil hjá þeim sem ekki taka laun samkvæmt starfsmati.

Skoðað var sérstaklega hvort ríkisfang hefði áhrif á laun. Niðurstaðan er sú að laun erlendra ríkisborgara eru töluvert lægri en laun íslenskra ríkisborgara. Starfsfólk með erlent ríkisfang er með 23,7% lægri grunnlaun en starfsfólk með íslenskt ríkisfang og 24,7% lægri heildarlaun. Þegar tekið hefur verið tillit til þátta eins og starfaflokks, menntunar, fag- og starfsaldurs og vinnutíma dregur verulega úr þessum mun sem endurspeglast í því að leiðréttur launamunur grunnlauna er 3,1% og heildarlauna 3,2% á hópunum. Þó er ekki um meiri kynbundinn launamun að ræða hjá þeim sem hafa erlent ríkisfang en íslenskt  og laun kvenna með íslenskan og erlendan ríkisborgarrétt eru jafn mikið lægri en laun karla.