Krakkar í Fellaskóla lesa fyrir leikskólabörn á mörgum tungumálum

Skóli og frístund

""

5. bekkingar í Fellaskóla heimsóttu leikskólana Holt og Ösp  í morgun og lásu fyrir leikskólabörnin ævintýri á hinum ýmsu tungumálum.

Mikill tungumálaauður er í Fellahverfinu og í leikskólunum Holti og Ösp eiga sjö af hverjum tíu börnum annað móðurmál en íslensku. Verkefnið Okkar mál í Fellahverfi miðar að því að efla móðurmálskunnáttu barna í leikskólunum og grunnskólunum, en sú kunnátta er undirstaða árangurs í öðrum tungumálum. Eftirvænting ríkti í morgun þegar krakkarnir í 5. bekk í Fellaskóla komu í heimsókn í leikskólann Holt og lásu upp á sínu móðurmáli ævintýri fyrir þau börn sem áttu sama móðurmál og þau. Lesið var upp á tólf tungumálum, m.a. á ensku, íslensku, tagalog, filippeysku, albönsku, pólsku og grísku, en alls eiga börnin í Holti sautján móðurmál og sum þeirra tala fjögur tungumál á degi hverjum. Þarna varð líka vinafundur því margir nemendur í Fellaskóla voru að koma í sinn gamla leikskóla í Holti og sumir hittu þar líka fyrir yngri systkini sín.