Klórslys í Grafarvogslaug

Heilsa

25 metra laugin í Grafarvogslaug.

Klórslys varð í Grafarvogslaug í gærkvöldi þegar gestur sundlaugarinnar fór inn í lokaða geymslu, sótti þar klór sem hann taldi vera vatn og hellti á steina í gufubaði. Þar sem klór getur verið skaðlegur öndunarfærum fóru nokkrir til skoðunar á bráðamóttöku.

Ekki er rétt, sem fram hefur komið í fjölmiðlum, að starfsmenn hafi verið að þrífa gufuna eða gleymt að loka þar hurð. Ljóst er að um slys var að ræða og hefur lögregla rætt við alla hlutaðeigandi. 

„Við hörmum að þetta óhapp hafi átt sér stað,“ segir Hrafn Þór Jörgensson, forstöðumaður Grafarvogslaugar. „ÍTR fer ítarlega yfir málið og gripið hefur verið til viðeigandi ráðstafana.“