Kennarar á námskeiði hjá Shirley Clarke

Skóli og frístund

""

Á yfirstandandi skólaári hafa 17 grunnskólar í borginni tekið þátt í þróunarverkefni um innleiðingu leiðsagnarmats (leiðsagnarnáms). Hápunktur þess var námskeið með bresku fræðikonunni Shirley Clarke. 

Í aðalnámskrá segir að leggja skuli áherslu á leiðsagnarmat þar sem nemendur velta reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið og ákveða hvert skuli stefna. Nemendum þarf að vera ljóst hvaða viðmið eru lögð til grundvallar í matinu. Áherslan á leiðsagnarmat/nám byggir á umfangsmiklum og virtum rannsóknum sem sýnt hafa fram á að hugmyndir og aðferðafræði þess stuðlar að auknum framförum nemenda.

Í þróunarverkefni sautján grunnskóla í borginni hefur verið leitað í smiðju Shirley Clarke, en hún hefur byggt upp aðferðarfræði í leiðsagnarnámi/mati í samstarfi við kennara í Bretlandi. Aðferðirnar byggja á niðurstöðum virtra rannsakenda, m.a. John Hattie og Carol Dweck. Sjálf segist Clarke leitast við að byggja brú á milli fræðaheimsins og skólastofunnar. Eftir hana liggja fjölmargar bækur um efnið og hún hefur haldið námskeið og fyrirlestra fyrri kennara í ýmsum löndum.

Hápunktur þróunarverkefnis skólanna sautján var í liðinni viku þegar Shirley Clarke hélt námskeið fyrir tæplega 400 grunnskólakennara og skólastjórnendur. Þá hélt hún einnig vinnustofu með innleiðingarteymum skólanna. Vinnustofan og námskeiðið voru afar fróðleg og hagnýt og tóku þátttakendur virkan þátt með umræðum. Væntanlega mun afrakstur dagsins nýtast þátttakendum í stöðugri viðleitni við að gera skólastarfið enn betra fyrir nemendur í Reykjavík.