Kennarar fjölmenna í sumarsmiðjur

Skóli og frístund

""

Mánudaginn 12. ágúst og þriðjudaginn 13. ágúst fer fram fræðsla fyrir kennara í Reykjavík í sumarsmiðjum og fyrirlestrum en undirbúningur fyrir skólaárið er nú að komast á fullt.

Í Hagaskóla hófust hátt í tuttugu sumarsmiðjur í morgunsárið þar sem kennarar fræddust m.a. um Byrjendalæsi, teymiskennslu, gagnvirkan lestur og leiðir til að efla lestrarhraða. Á sama tíma hófust í Sæmundarskóla fyrirlestrar innlendra og erlendra sérfræðinga um  nýjar skólalausnir Google en góð aðstaða er í skólanum fyrir nútímalega náms- og kennsluhætti með stafrænni tækni. Á báðum stöðum er kynnt ný menntastefna Reykjavíkurborgar - Látum draumana rætast - og sett upp vinnusmiðja um inntak hennar í ljósi hugmynda kennara um menntun til framtíðar.  Í sumarsmiðjum fyrirkennara er lögð áhersla á framsækið skólastarf, lausnir fyrir fjölbreyttan nemendahóp og sköpun í skólastarfi og eru þær að vanda afar vel sóttar.