Keðjan, samstarfsnet um betri þjónustu við börn

Skóli og frístund Velferð

""

Keðjan er ný starfseining innan velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, opnaði formlega í Þönglabakka 4 í dag. Hlutverk hennar er að veita stuðningsþjónustu fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra.

Haldin var samkeppni um nafn á nýju starfseiningunni og afhenti Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs vinningshafanum, Þóru Jónsdóttur, glaðning fyrir bestu tillöguna.  

Árlega fá 1.100 börn og fjölskyldur þeirra fjölbreytta stuðningsþjónustu frá velferðarsviði. Um er að ræða aðstoð inn á heimili, t.d. í formi uppeldisráðgjafar, félagslegs stuðnings til að efla börn og unglinga í leik og starfi, fjölbreytts hópastarfs, námskeiða fyrir foreldra og börn, dvalar hjá stuðningsfjölskyldum, í unglingasmiðjum og í skammtímavistun.

Með tilkomu Keðjunnar verður framkvæmd stuðningsþjónustu veitt frá einum starfsstað í stað fimm áður. Aðgengi notenda að þjónustunni verður eftir sem áður í gegnum þjónustumiðstöðvar velferðarsviðs.

Í Keðjunni verður lögð áhersla á þróun úrræða og nýsköpun í samstarfi við þjónustumiðstöðvar, Barnavernd, skóla- og frístundasvið og aðra mikilvæga aðila í samfélaginu sem veita börnum og fjölskyldum þeirra þjónustu. Leiðarljós Keðjunnar er að tryggja bestu þjónustuna hverju sinni á forsendum barna og fjölskyldna þeirra.

Dagur B. Eggertsson segir þetta mjög ánægjuleg tímamót: „Með samstilltu átaki allra þeirra starfsmanna sem sinna þessum störfum í dag skapast aukin tækifæri til að efla þjónustuna enn frekar og auka fjölbreytni í þjónustu, óháð búsetu barna innan borgarinnar“.

Í Keðjunni munu starfa um 190 fagaðilar í um 50 stöðugildum. Framkvæmdastjóri Keðjunnar er Halldóra Gyða Matthíasdóttir.