Kallað eftir auknu samstarfi um þjónustu við heimilislaust fólk

Yfirlitsmynd af snævi þöktum Laugardalnum.

Velferðarráð ákvað á fundi sínum í gær að hækka gistináttagjald annarra sveitarfélaga fyrir gistingu í neyðarskýlum Reykjavíkurborgar í 46 þúsund krónur á nóttu, til að standa undir raunkostnaði við þjónustuna. Það var á meðal áfangatillagna stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir sem samþykktar voru. Á fundinum var lögð áhersla á að fleiri sveitarfélög verði að koma að þjónustu við heimilislaust fólk og skorað á ríkið að koma með sama hætti að fjármögnun og skipulagi málaflokksins og tíðkast erlendis.

Einnig var samþykkt að vinna að útfærslu á þrepaskiptri þjónustu. Í því felst að takmarka þann tíma sem einstaklingar þurfa að reiða sig á neyðarskýli en leggja meiri áherslu á tímabundið áfangahúsnæði, þar sem einstaklingsmiðaður stuðningur, endurhæfing og mat á þjónustuþörfum á sér stað. Eftir dvöl í áfangahúsnæði liggi fyrir hvaða búsetuform og / eða stuðningur henti og viðkomandi fái stuðning inn í þá búsetu. Kostnaðarmetin útfærsla á þessu fyrirkomulagi verður hluti af endanlegri tillögu að aðgerðaáætlun sem lögð verður fyrir ráðið í maí.

Nýtt áfangaheimili verður opnað

Endurbætt áfangahúsnæði fyrir konur tók nýverið til starfa. Þar eru nú fimm konur en á næstu vikum verður sex til viðbótar úthlutað. Þá verður nýtt áfangahúsnæði fyrir 8 karla opnað á næstu mánuðum. Á fundinum var jafnframt lagt til að velferðarsviði verði falið að leita liðsinnis Eignaskrifstofu Reykjavíkurborgar með að finna húsnæði sem gæti hentað fyrir hjúkrunarrými fyrir einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir. 

Margt áunnist á síðustu árum

Ýmsar jákvæðar og mikilvægar breytingar hafa áunnist í þjónustu við heimilislausa á undanförnum árum, með tilkomu stefnu um málefni heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Stefnan var samþykkt í október 2019 og gildir til ársins 2025. Meðal annars hefur hugmyndafræðin „húsnæði fyrst“ verið innleidd og samfara því stökum íbúðum, smáhúsum og íbúðakjörnum fjölgað. Þá hefur Vettvangs- og ráðgjafarteymi Reykjavíkurborgar verið styrkt og nýtt neyðarskýli fyrir karla opnað. Nýlega var stórum áfanga náð í innleiðingu stefnunnar þegar heimahjúkrun Reykjavíkurborgar gerði samning við Sjúkratryggingar Íslands um heilbrigðisþjónustu á vettvangi.

Kostnaður hefur aukist mikið með fjölgun úrræða sem þjóna fólki af öllu landinu. Því var sviðsstjóra velferðarsviðs falið að eiga samtal við Samband íslenskra sveitarfélaga um mikilvægi aðkomu ríkisins að málaflokknum. Einnig var sviðsstjóra falið að eiga viðræður við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um samstarf þeirra í málefnum heimilislausra.

Ný aðgerðaáætlun verður til

Stýrihópurinn um endurskoðun aðgerðaáætlunar var skipaður í desember 2021 en formaður velferðarráðs, Heiða Björg Hilmisdóttir, veitir honum forystu. Markmið og hlutverk hópsins er að endurskoða núverandi aðgerðaáætlun stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir og leggja fram tillögur að nýjum eða breyttum aðgerðum. Sérstök áhersla er lögð á stöðu heimilislausra kvenna í endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar en á fundi velferðarráðs var kynnt þarfagreining fyrir nýtt neyðarskýli fyrir konur og áfangahúsnæði.

„Á ábyrgð okkar allra að koma í veg fyrir heimilisleysi“

„Það er á ábyrgð okkar allra að koma í veg fyrir heimilisleysi og styðja þau sem í þeim aðstæðum lenda þannig að þau nái fótfestu á ný. Við erum hér að leggja til grundvallarbreytingu á þjónustu við heimilislaust fólk, bjóða uppá tímabundið áfangahúsnæði sem gerir okkur kleift að styðja betur við hvern og einn. Þetta er í anda velferðarstefnu borgarinnar. Þar er grundvallarnálgun að leiðir til lausna og þjónustu séu sniðnar að hverjum og einum og unnar í samstarfi við notanda,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs.