Kallað eftir ábendingum um bætt aðgengi að kosningum og kjörstöðum.

Mannréttindi Kosningar

""

Sérstakt svæði hefur verið opnað hér inni á Betri Reykjavík vefnum, þar sem hægt er að senda inn ábendingar og/eða reynslusögur vegna aðgengismála á og við kjörstaði í Reykjavík. Aðgengis- og samráðsnefnd fatlaðs fólks í Reykjavík mun fara yfir allar ábendingar og koma þeim á framfæri.

Hugmyndin kviknaði út frá átaki Þroskahjálpar, Ég kýs ekki. Herferðinni er ætlað að vekja athygli á kosningarétti fatlaðs fólks og þeim hindrunum sem fólk mætir við þátttöku í lýðræðinu. Meðal nefndra hindrana eru aðstoðarleysi, aðgengisleysi og stuðningsleysi við að afla upplýsinga, mynda sér skoðun og mæta á kjörstað.

Skilvirk leið að úrbótum

„Markmiðið með þessu verkefni er að tryggja að kjörstaðir í Reykjavíkurborg séu aðgengilegir og að við getum brugðist við ábendingum borgarbúa um kjörstaði þar sem aðgengi er ábótavant,“ segir Tómas Ingi Adolfsson, sérfræðingur á mannréttinda-og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar. „Kveikjan var herferð Þroskahjálpar og áttum við í framhaldinu samtal við starfsmann skrifstofu borgarstjórnar sem sér um framkvæmd kosninganna í Reykjavík. Okkur langaði að bregðast við þessu ákalli Þroskahjálpar og gera okkar til að tryggja aðgengi allra að kosningum.“

Betri Reykjavík er samráðsvefur Reykjavíkurborgar og þar er kallað eftir afstöðu og áliti borgarbúa við hin ýmsu verkefni. Niðurstaðan varð að nota þennan vettvang, enda væri það einföld og skilvirk leið sem mætti koma í gagnið strax.

„Allir mega senda okkur ábendingar og við vonumst eftir góðum viðbrögðum, sérstaklega frá fólki sem hefur reynslu af því að kjósa á kjörstöðum í Reykjavík,“ segir Tómas. „Þessi ábendingavefur er opinn vettvangur. Því er engin þörf á innskráningu og allir geta séð sögurnar og ábendingarnar sem rata þarna inn.“

Markmiðið að tryggja gott aðgengi fyrir alla

Aðgengis- og samráðsnefnd fatlaðs fólks í Reykjavík mun fara yfir ábendingar sem berast og koma með tillögur að úrbótum. „Við munum bregðast við ábendingum fyrir Alþingiskosningarnar núna í september eftir fremsta megni, en ef ekki tekst að gera úrbætur í samræmi við einhverjar þeirra strax, svo sem ef ábendingar kalla á stórar framkvæmdir eða að fundnir verði nýir kjörstaðir, munu þær nýtast fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor,“ segir Tómas.

Tekið skal fram að ábendingasvæðið á Betri Reykjavík verður opið fram yfir þingkosningarnar svo fólk geti tjáð sig þar, lendi það í aðgengishindrunum á kjörstað. Tómas segist ekki vita til þess að aðgengismál hafi verið stórt vandamál við kjörstaði í borginni. „Við höfum þó fengið ábendingar um einstaka kjörstaði þar sem má gera betur. Vonandi tekst okkur að tryggja gott aðgengi fyrir alla.“