Kæri heimur - Lag Barnamenningarhátíðar 2023

Söngkonan Vigdís Hafliðadóttir flutti lagið fyrir nemendur í Engjaskóla í dag.

Við kynnum með stolti lag Barnamenningarhátíðar 2023 Kæri heimur.

Allir 4. bekkir í grunnskólum Reykjavíkur fengu það verkefni að svara spurningum um frið, allt frá innri friði hvers og eins til heimsfriðar. Vigdís Hafliðadóttir og Ragnhildur Veigarsdóttir liðsmenn hljómsveitarinnar Flott sömdu svo lag og textinn er byggður á svörum barnanna um frið og er í raun ákall þeirra um heimsfrið. Titill lagsins kemur frá nemendum Engjaskóla sem skrifuðu bréf til heimsins með þessum titli.

Lag Barnamenningarhátíðar hefur verið samið í samstarfi tónlistarfólks og nemenda í 4. bekk grunnskóla frá árinu 2015. Meðal tónlistarfólks sem hefur lagt verkefninu lið eru Salka Sól, Reykjavíkurdætur, Jón Jónsson, Daði Freyr, Bríet og JóiPé og Króli.

Barnamenningarhátíð verður haldin dagana 18.–23. apríl næstkomandi. Vettvangur hátíðarinnar er borgin öll og verða fjölbreyttir viðburðir á boðstólum fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Frítt er inn á alla viðburði.