Jón Árnason þjóðsagnasafnari heiðraður

Menning og listir Mannlíf

""

Jón Árnason þjóðsagnasafnari hefur nú verið heiðraður með bókmenntamerkingu í Reykjavík bókmenntaborg UNESCO.

Í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli Jóns Árnasonar (1819-1888) þjóðsagnasafnara og landsbókarvarðar hefur bókmenntamerking verið sett upp við Laufásveg 5. Húsið byggðu Jón og Katrín Þorvaldsdóttir Sívertsen (1829-1895) kona hans árið 1880 og þar bjó Jón til dauðadags. Húsið hefur stundum verið nefnt Jónshús og því ánægjulegt að minnast hans við það. Með menningarmerkingunni vill Reykjavíkurborg heiðra minningu Jóns Árnasonar og hans merka starf sem þjóðsagnasafnara, en Jón var frumkvöðull í söfnun þjóðsagna hér á landi. Hann hóf starf sitt sem þjóðsagnasafnari árið 1845 með Magnúsi Grímssyni og árið 1852 kom út safn þeirra Íslenzk ævintýri. Þjóðsagnasafnið sem kennt er við Jón kom síðan fyrst út í tveimur bindum árin 1862 og 1864.

Fæðingarafmæli Jóns hefur verið minnst með ólíkum hætti á árinu, bæði hér í borginni og á Hofi á Skagaströnd þar sem hann fæddist. Jón safnaði þjóðsögum stóran hluta starfsævi sinnar og gegndi fjölmörgum störfum; var meðal annars biskupsritari, umsjónarmaður í Lærða skólanum, meðumsjónarmaður með Forngripasafninu (síðar Þjóðminjasafni) og landsbókavörður frá 1848 til 1887.

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn heldur málþing um Jón Árnason þann 7. september í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli hans þar sem fjallað verður um líf hans og störf.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum mun heiðra minningu Jóns með ráðstefnu í október og er hægt að lesa nánar um hana á vef stofnunarinnar.

Reykjavíkurborg hefur frá árinu 2011 sett upp bókmenntamerkingar í borgarlandinu sem lyfta fram þeirri miklu bókmenntasögu sem í borginni býr. Hægt er að sjá á vefsíðu Bókmenntaborgarinnar hvar þær er að finna og einnig staðsetningu skáldabekkja sem krydda lífið í borginni en þar er hægt að setjast niður og hlusta á upplestur úr samtímabókmennum á íslensku og ensku í gegnum snjallsíma.