No translated content text
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnaði jólaskóginn í Tjarnarsal ráðhússins í dag með skemmtilegri dagskrá. Börn frá leikskólunum Grænuborg, Tjörn og Miðborg komu í heimsókn í jólaskóginn og fengu smákökur og heitt kakó.
Grýla og Leppalúði mættu á svæðið og sögðu börnunum sögur af jólasveinunum, sem koma brátt til byggða, og sungin voru jólalög.
Jólavættirnar fara á stjá í dag og má sjá þær á vappi víðs vegar um borgina það eru Rauðhöfði, Leiðindaskjóða, Stekkjastaur, Hurðaskellir, Gluggagægir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Stúfur, Grýla, Leppalúði, Jólakötturinn, tvíburarnir Surtla og Sighvatur og Kattarvali.
Allir eru hvattir til að taka þátt í fjölskylduleiknum sem byggist á því að hafa upp á vættunum og svara léttum og skemmtilegum spurningum um þessa fjölbreyttu jólasveinafjölskyldu. Hægt er að nálgast ratleikinn í Ráðhúsi Reykjavíkur, í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu og á Kjarvalsstöðum en á þessum stöðum er einnig hægt að sjá allar jólavættirnar á einum stað.
Þá er hægt að nálgast leikinn á vefnum jolaborgin.is. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir þann sem sigrar í leiknum en hægt er að skila svörum til Höfuðborgarstofu í Ráðhúsi Reykjavíkur fyrir 27. desember nk.
Það verður margt skemmtilegt í boði á aðventunni í Reykjavík. Meginmarkmiðið er að skapa áhrifaríka og skemmtilega jólaupplifun í borginni á einfaldan hátt í góðu samstarfi við fjölda samstarfsaðila víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu.
Sjá dagskrá á aðventunni á jolaborgin.is