No translated content text
Jólaskógurinn opnar í Ráðhúsi Reykjavíkur
Það var líf og fjör í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun þegar jólaskógurinn var formlega opnaður.
Þetta er í tólfta sinn sem Tjarnarsalnum er breytt í jólaskóg. Hönnun og framkvæmd verkefnisins var í höndum Tönju Levý og Jökuls Jónssonar upplifunarhönnuða.
Leikskólabörn frá leikskólanum Reynisholti og Ártúnsskóla komu til að skoða jólaskóginn og biðu spennt eftir því að hitta Grýlu og Leppalúða sem ætluðu að mæta á svæðið.
Í miðjum jólaskóginum stendur stórt jólatré sem er skreytt með Kærleikskúlum frá styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Afrakstur af sölu Kærleikskúlunnar rennur til sumarbúðanna í Reykjadal sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra á og rekur.
Í jólaskóginum er einnig stór jólakrans sem er tilvalinn sem umgjörð fyrir jólamyndatökur. Þá er hægt að teikna myndir eða senda bréf til jólasveinanna og setja í póstkassa sem er á kofa jólasveinanna í jólaskóginum.
Grýla og Leppalúði komu og heilsuðu upp á börnin og sögðu sögur af jólasveinunum, en nú styttist í að Stekkjastaur, fyrsti jólasveinninn, komi til byggða. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, kom og bauð börnin, Grýlu og Leppalúða velkomin í jólaskóginn, sungin voru jólalög og dönsuðu svo allir í kringum jólatréð. Að því loknu var boðið upp á heitt súkkulaði og smákökur. Börnin notuðu svo tækifærið og teiknuðu myndir og settu í póstkassann á kofa jólasveinanna. Teikningarnar munu áreiðanlega gleðja jólasveinana þegar þeir koma til byggða þegar nær dregur jólum.
Hægt verður að skoða jólaskóginn á opnunartíma Ráðhúss sem er opið virka daga 08.00 – 18.00 og opið um á laugardögum frá 10.00 – 18.00 og á sunnudögum frá 12.00-18.00.
Öll velkomin.