
Það var líf og fjör í Ráðhúsi Reykjavíkur í morgun þegar jólaskógurinn var formlega opnaður.
Leikskólabörn frá leikskólanum Miðborg komu til að skoða jólaskóginn og biðu spennt eftri því að hitta Grýlu og Leppalúða sem ætluðu að mæta á svæðið.
Þetta er í ellefta sinn sem Tjarnarsalnum er breytt í jólaskóg sem að þessu sinni ber yfirskriftina jólaskógur í fjallasal. Hönnun og framkvæmd verkefnisins var í höndum Kristínar Maríu Steinþórsdóttur, upplifunarhönnuðar.
Grýla og Leppalúði komu og heilsuðu upp á börnin og sögðu sögur af jólasveinunum, en nú styttist í að Stekkjastaur, fyrsti jólasveinninn, komi til byggða. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, kom og bauð börnin og Grýlu og Leppalúða velkomin í jólaskóginn, sungin voru jólalög og dönsuðu svo allir í kringum jólatréð. Að því loknu var boðið upp á heitt súkkulaði og smákökur.
Hægt verður að skoða jólaskóginn á opnunartíma Ráðhúss sem er opið virka daga 08:00 – 18:00 og opið um helgar 10:00 – 18:00.
Öll velkomin.