Jólaljósin tendruð á reykvíska jólatrénu í Þórshöfn í Færeyjum
Kveikt var á ljósunum á jólatrénu, sem er gjöf frá Reykvíkingum til Þórshafnarbúa, á Tinghúsvellinum í Færeyjum á laugardaginn þann 30. nóvember.
Þetta er í tólfta sinn sem Reykvíkingar gefa Færeyingum tré að gjöf, en tréð var fellt í Heiðmörk á svæði Skógræktarfélags Reykjavíkur í síðasta mánuði. Um er að ræða sitkagrenitré og sá Eimskip um flutning trésins til Þórshafnar.
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi, var í Þórshöfn og afhenti Þórshafnarbúum formlega tréð við hátíðlega athöfn á Tinghúsvöllinum á laugardaginn. Heðin Mortensen, borgarstjóri, þakkaði Reykvíkingum fyrir tréð og vinskapinn milli borganna tveggja.
Jólasveinar óku um miðborgina í Þórshöfn og skemmtu þeim sem á vegi þeirra urðu. Einn af jólasveinunum sveif yfir jólatrénu í körfubíl og kveikti á ljósunum.
Mannfjöldi var samankominn til að taka þátt í hátíðahöldunum og var veður með ágætum í Þórshöfn á laugardaginn og jólatréð er fallega skreytt. Gestum og gangandi var boðið upp á konfekt og flutt voru jólalög.
Sjá fleiri myndir og frásögn á heimasíðu Þórshafnarborgar