Ljósin á Oslóartrénu á Austurvelli verða tendruð sunnudaginn 3. desember. Í ár mun íslenskt grenitré úr norska lundinum í Heiðmörk prýða Austurvöll.
Tendrun jólaljósanna á Oslóartrénu markar upphaf aðventunnar í borginni og minnir sem fyrr á áratuga vinasamband Reykjavíkur og Oslóarborgar.
Dagskráin hefst klukkan 16.00 en þá mun Eivor Evenrud, borgarfulltrúi Oslóarborgar, afhenda tréð formlega á Austurvelli. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, veitir gjöfinni viðtöku fyrir hönd borgarinnar og flytur þakkarávarp. Að því loknu mun Sóley Dögg Gunnarsdóttir norsk-íslensk stúlka kveikja á jólaljósunum.
Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson flytja falleg jólalög ásamt hljómsveit. Lúðrasveit Reykjavíkur flytur nokkur vel valin lög og frést hefur að jólasveinar munu stelast í bæinn og syngja og skemmta kátum krökkum. Rauði Krossinn verður með sölu á kaffi og heitu kakói til að verma kalda kroppa.
Kynnir er hin ástsæla Gerður G. Bjarklind og verður dagskráin túlkuð á táknmáli.
Askasleikir 12. jólaórói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra prýðir jólatréð í ár. Í honum sameinast íslenskur menningararfur, hönnun og mikilsvert málefni. Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur) hannaði óróann í ár og Ásta Fanney Sigurðardóttir hefur samið kvæði. Allur ágóði af sölunni rennur til Æfingastöðvarinnar, þar sem börn fá sjúkra- og iðjuþjálfun. Reykjavíkurborg hefur frá upphafi stutt verkefnið en óróar Styrktarfélagsins hafa verið eina skrautið á Oslóartrénu auk jólaljósanna.