Sannkallaður jólaandi hríslaðist um viðstödd þegar Jóladalurinn í Laugardal var formlega opnaður nú undir kvöld. Undanfarnar vikur hefur starfsfólk Fjölskyldu- og húsdýragarðsins sett upp jólaljós um allan garð svo ævintýri líkast er að ganga um garðinn í rökkrinu og heimsækja dýrin. Þau sem þora geta líka heimsótt sjálfan jólaköttinn.
Formleg opnun Jóladalsins í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum var með hátíðlegasta móti. Einar Þorsteinsson borgarstjóri flutti jólakveðju til borgarbúa og gesta og listskautahópur frá Skautafélagi Reykjavíkur lék listir sínar. Lúðrasveit Verkalýðsins skemmti og þá söng Jóhanna Guðrún nokkur lög. Lalli töframaður hélt utan um dagskrána og á leið sinni frá innganginum að tjörninni gátu gestir rekist á kvartettinn Barböru og kynjaverur úr hugarheimi Brian Pilkington.
Listskautahópur frá Skautafélagi Reykjavíkur sýndi listir sínar.
Frítt inn á kvöldin um helgar á aðventunni
Kvöldopnanir verða alla aðventuna líkt og undanfarin ár en opið verður til klukkan 20 föstudaga til sunnudaga frá 29. nóvember til jóla. Verkefnið Jólaland í Laugardalnum var kosið í hverfakosningum í fyrra og því býður „Hverfið mitt“ öllum að heimsækja jólaljósaskreyttan Fjölskyldu- og húsdýragarðinn frá klukkan 17-20 föstudaga til sunnudaga á aðventunni. Hefðbundinn opnunartími er annars alla daga frá klukkan 10 til 17 og þá gildir hefðbundinn aðgangseyrir.
Á kvöldopnunum verður hægt að fara í hringekjuna, tónlist mun óma, matarvagnar verða á staðnum fyrir svanga gesti og drykkir og notalegheit í veitingaskálanum. Ratleikur fyrir alla fjölskylduna verður aðgengilegur í gegnum smáforritið Húsdýragarður – viskuslóð sem finna má i snjallverslunum snjalltækja. Hundaeigendum sem hafa skráð sína hunda hjá sínu sveitarfélagi er boðið að taka besta vininn með í kvöldheimsókn.
Á Facebook- síðu Reykjavíkurborgar má finna fleiri myndir frá viðburðinum.