Jólaborgin í jólaskapi

Oslóartréð á Austurvelli

Reykjavík er komin í jólabúning og á aðventunni verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá í miðborginni og víðar.

Jólakötturinn er nú kominn á sinn stað og jólaljósin, um 200 þúsund perur og 20 kílómetrar af jólaseríum, prýða nú borgina. Oslóartréð, sem á sér fastan sess í hugum borgarbúa, lýsir upp Austurvöll og er ómissandi hluti af jólaborginni.

Viðburðapottur jólaborgarinnar

Fjölbreyttir viðburðir verða í boði á aðventunni sem munu gleðja gesti og gangandi. Úthlutað var 21 styrk úr viðburðapotti jólaborgarinnar til aðila sem verða með viðburði á aðventunni. Boðið verður upp á söng og tónlist, kórsöng og minni sönghópa, Harmonikkusystur og lúðrasveit svo fátt eitt sé nefnt. Jólasveinarnir verða á vappi í miðborginni og tröllið Tufti bregður á leik alla sunnudaga fram að jólum. Boðið verður upp á flesta viðburði um helgar og svo síðustu dagana fyrir jól.

Jólavættaleikur

Jólavættaleikurinn hefst í dag, 1. desember og verða þá allar jólavættirnar búnar að koma sér fyrir á húsveggjum víðs vegar um miðborgina. Leikurinn hefur notið vinsælda meðal gesta borgarinnar sem þurfa að þræða götur og torg í leitinni að jólavættunum og fylla inn á jolavaettir.borginokkar.is. Leikurinn stendur til 19. desember og verða vegleg verðlaun dregin út úr innsendum réttum svörum.

Jólaskógur

Jólaskógur Ráðhússins var opnaður í dag, 1. desember. Hönnuðurinn Kristín María Steinþórsdóttir umbreytti Tjarnarsalnum í ævintýralegan jólaskóg. Þar geta gestir og gangandi gengið um og komist í jólaskap enda grenilyktin allsráðandi í skrautlegu jólaumhverfi.

Stuð á skautum  

Stuðsvell Nova og Orkusölunnar á Ingólfstorgi var opnað um liðna helgi. Á Stuðsvellinu mun jólaandinn ríkja á meðan gestir spreyta sig á skautum á svellinu og á milli skautaferða má gæða sér á heitu kakói og meðlæti í söluskálum. Stuðsvellið er opið alla daga frá klukkan 12-21 nema á jóladag og annan í jólum. Á gamlársdag er opið til klukkan 15.00 og á nýársdag er opið frá klukkan 12-21. Bóka má tíma heimasíðunni

Jólamarkaðir

Jólamarkaðurinn Hjartatorgi verður á sínum stað og opinn allar helgar í desember og dagana 21-23 desember. Þar verður að finna fjölbreytt úrval söluaðila með smávörur og aðrar spennandi jólavörur. Þá verða matarvagnar á staðnum þar sem boðið er upp á gómsæta rétti. Ýmis  skemmtiatriði verða á Hjartatorgi og sannkölluð jólastemning.

Jólakvosin er jólamarkaður sem verður opnaður í hjarta Kvosarinnar við Stuðsvellið á Ingólfstorgi og stendur frá 2.desember til 23.desember. Þar verða fjölbreyttir sölubásar með gómsætum kræsingum, sælgæti, jólaglöggi og vörum ásamt öðru skemmtilegu sem kemur öllum í gott jólaskap. Í Jólakvosinni verða síðan haldnir minni viðburðir sem auglýstir verða síðar á fésbókarsíðu jólamarkaðarins. Jólamarkaðurinn verður opnaður föstudaginn 2. desember og verður opið fyrstu helgina frá 16-20 á föstudag og 12-20 á laugardag og sunnudag.

Jólatrjáasala Skógræktarfélags Reykjavíkur verður svo á Lækjartorgi og byrjar 17. desember og verður alla daga til 22. desember. Alveg tilvalið fyrir íbúa miðborgarinnar að ná sér í jólatré fyrir hátíðina.

Jól á Borgarbókasafni

Jóladagskrá Borgarbókasafnsins er fjölbreytt og ættu öll að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í aðdraganda jóla. Boðið verður upp á upplestur úr nýjum bókum, barnabókaball, ýmiss konar föndurstundir, samsöng og margt fleira. Jóladagatalið er á sínum stað þar sem opnaður verður einn kafli á dag, lesum eða hlustum á Jólaævintýri Kötlu og Leós. Nánar um jóladagskrá Borgarbókasafnsins.

Jólin á Árbæjarsafni

Bráðum koma blessuð jólin er yfirskrift jóladagskrár Árbæjarsafns sunnudagana 11. og 18. desember. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá.  Í Árbæ má sjá heimafólk skera út laufabrauð, kemba ull og spinna garn. Í Hábæ bjóða húsbændur gestum að smakka íslenskt hangikjöt og í Nýlendu verður maður að tálga skemmtilegar fígúrur úr tré. Frítt er inn á jóladagskrá safnsins í ár gegn framvísun miða sem fæst á tix.is, en verkefnið hlaut brautargengi í hverfakosningunum Hverfið mitt 2021-2022.

Allar nánari upplýsingar um dagskrá Jólaborgarinnar

Öll velkomin í Jólaborgina!