Jens fagnar hálfrar aldar starfsafmæli

Framkvæmdir Kosningar

""

Jens Karel Þorsteinsson á nú 50 ára starfsafmæli hjá Reykjavíkurborg. Jens hóf störf hjá Trésmiðju Reykjavíkur fyrir 50 árum. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri þakkaði honum fyrir störf hans í þágu borgarbúa. 

Jens Karel Þorsteinsson hóf störf sextán ára gamall hjá Trésmiðju Reykjavíkur 29. maí 1968 og lærði húsasmíði í  áhaldahúss Reykjavíkur sem var staðsett á Höfðatorgsreitnum. Hann lauk sveinsprófi 1973 og fékk meistarabréf 1980.

Jens hefur átt viðburðaríka starfsævi hjá borginni, hann hefur einnig verið trúnaðarmaður iðnaðarmanna hjá borginni og setið í samninganefndum. Jens er töluglöggur og sá m.a. um kaupauka-launakerfið. Hann tengist stórviðburðum eins og leiðtogafundinum í Höfða og heimsókn kaþólska páfans.

Leiðtogafundurinn og páfinn

Jens fæddist í Gröndalshúsi á Vesturgötu 16b þann 15. júní árið 1951 og hann bjó þar í 23 ár. Reykjavíkurborg eignaðist húsið árið 2006.

Árið 1978 var afdrífaríkt því þá féll hann úr 6 metra hæða við Fossvogsskóla, hælbrotnaði á báðum og ökklabrotnaði. Hann var í gifsi í 14 vikur og á Landakoti í sex vikur í endurhæfingu. Hann vann hálfan daginn þegar hann hóf aftur störf en þetta slys hefur háð honum alla tíð síðan.   

Jens hefur unnið að mörgum merkilegum verkefnum við viðgerðir og endurnýjun bygginga, t.d. á Höfða, turninum á Lækjartorgi, Iðnaðarmannafélagsturninum Lækjargötu 14, Fríkirkjuvegi 11, Miðbæjarskólanum, Tjarnargötu 20 og einnig skólum og leikskólum. Hann hefur einnig smíðað með félögum sínum palla og annað fyrir heimsókn Jóhannesar Páls páfa árið 1989, leiðtogafundinn þegar Reagan og Gorbachev hittust í Höfða í Reykjavík 1986 og fund Nixon og Pompidou á Kjarvalsstöðum 1973. Einnig má nefna 17. júní hátíðarhöldin, 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar og 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar árið 1986.

Hér er verið að flytja víkingaskip sem Jens og félagar smíðuðu 1100 ára afmælið 1974, þar sem Gunnar Eyjólfsson og Bessi Bjarnason eru í hlutverkum.

Kosningar hafa einkennt störfin

Jens er ómissandi þegar undirbúa þarf kosningar í Reykjavík. Hann ber ábyrgð á undirbúningi og uppsetningu kjörstaða vegna alþingis-, sveitastjórna- og forsetakosninga. 14 borgarstjórar hafa verið við völd frá því Jens hóf störf.

41 kosning hefur átt sér stað frá því Jens hóf störf hjá borginni. Segja má að Jens sé maðurinn á bak við tjöldin því hann og kosningateymið hans hafa stjórnað 24 síðustu kosningum í Reykjavík. Þau fara t.d. yfir alla kjörkassa, lykla, lok, botna og merkja þá. Allt þarf að vera rétt, allar merkingar inni og úti á kjörstöðum.

Núna síðast undirbjuggu þau 15 kjörstaði, 90 kjördeildir og svo talningastaðinn í Laugardalshöll fyrir kosningarnar. Tvöfalt sett þarf af öllum kössum, 180 kassa, 90 að morgni og 90 eftir kl. 16 til að skipta út. Þá sjá þau sýslumanni fyrir kjörkössum fyrir utankjörstaðaatkvæði sem voru um 20 stykki að þessu sinni.

Jens býst fastlega við að starfa fyrir borgina til sjötugs. Hann segir að galdurinn sé að störfin eru fjölbreytt í gegnum tíðina, hann hefur verið bæði iðnaðarmaður og skrifstofumaður og alltaf þótt gaman að vera að vinna að gömlu húsunum.

Turninn á Lækjartorgi

Kannski er gamli söluturninn á Lækjartorgi í uppáhaldi og sumir segja að enginn turn eða bygging hafi verið flutt jafnoft til í borginni. Jens og félagar sóttu hann í Árbæjarsafn til að gera við hann í áhaldahúsinu. En þessi turn var upphaflega á Lækjartorgi árið 1907 þegar Danakonungur sótti Ísland heim. Næst var hann fluttur við Arnarhól árið 1918, þá aftur á Lækjartorg árið 1978. En að forgöngu Elínar Pálmadóttur var turninn endurbyggður árin 1977-78 af Trésmiðju byggingardeildar og Jens var þá viðstaddur á hækjum eftir slysið, hann var enn að jafna sig eftir slysið. Svo fór turninn í Mæðragarðinn við Miðbæjarskólann og loks enn á ný á Lækjartorg árið 2010 þar sem hann er á þeim stað sem hann var í upphafi. Rögnvaldur Ólafsson teiknaði söluturninn og varð hann fljótlega eitt af helstu kennileitum borgarinnar.

Jens á hækjunum 1978 að fylgjast með turninum.

Þótt Jens hafi ávallt starfað hjá borginni hefur vinnustaðurinn oft breytt um nafn. Hann starfar nú hjá á byggingardeild á skrifstofu framkvæmda og viðhalds á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Megi Jens lengi lifa.