Jafnréttismat áður en opnunartíma leikskóla verður breytt

Skóli og frístund

""

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag tillögu borgarstjóra þess efnis að gert verði ítarlegt jafnréttismat á fram kominni tillögu um breyttan opnunartíma í leikskólum.

Í vinnu við jafnréttismat verður lögð áhersla á að fá fram skoðanir foreldra, sérstaklega þeirra sem eru með dvalarsamninga eftir kl. 16.30, og greina aðstæður þeirra. Þá verður leitast við að greina þann hóp foreldra sem almennt á erfitt með að mæta breyttum opnunartíma, hversu stór hann sé og hvernig samansettur. Tillagan er sett fram í samráði við stýrihóp um umbætur og skipulag leikskólastarfs.

Jafnframt felur samþykkt borgarráðs í sér mat á því hvort grípa megi til mótvægisaðgerða vegna breytinga á opnunartíma leikskóla til að vinna að auknu jafnrétti.

Að jafnréttismati loknu muni borgarráð taka tillögu um breyttan opnunartíma leikskólanna til endanlegrar meðferðar og afgreiðslu.

Meirihluti skóla- og frístundaráðs samþykkti 13. janúar að breyta opnunartíma leikskóla borgarinnar frá og með 1. apríl næstkomandi þannig að almennur opnunartími yrði frá 07.30-16.30. Með því styttist opnunartíminn um hálfa klukkustund en leikskólarnir hafa verið opnir til kl. 17.00.  

Fyrirhuguð breyting á opnunartíma byggði á tillögu stýrihóps um umbætur og skipulag leikskólastarfs en í honum sitja m.a. fulltrúar leikskólastjóra og leikskólakennara. Tilefni tillögunnar er skortur á leikskólakennurum um land allt í kjölfar lengingar kennaranáms í fimm ár á sínum tíma. Markmið tillögunnar er að minnka álag á börn og starfsfólk leikskóla og standa þannig vörð um gæði leikskólastarfs sem er á heimsmælikvarða.  Í skýrslu stýrihópsins kom m.a. fram að 92% leikskólabarna voru sótt fyrir kl. 16.30.  937 börn, eða 18% af heildarfjölda leikskólabarna eru með dvalarsamning  sem lýkur eftir kl. 16.30 Um helmingur þeirra er sóttur fyrir kl. 16.30.

Í þeirri vinnu sem fram undan er verður óskað eftir umsögnum hagsmunasamtaka foreldra, s.s. Félags foreldra leikskólabarna í Reykjavík, Heimilis og skóla og hagsmunasamtaka leikskólakennara og stjórnenda.

Sjá tillögu og greinargerð borgarstjóra.