Íþróttafólk Reykjavíkur 2015

Íþróttir og útivist Mannlíf

""
Tilkynnt var um val á Íþróttafólki Reykjavíkur í dag. Í tilefni dagsins bauð borgarstjórinn, Dagur B. Eggertsson, til móttöku í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. 
Íþróttakarl Reykjavíkur 2015 er kraftlyftingamaðurinn Júlían Jóhann Karl Jóhannsson úr Glímufélaginu Ármanni. Júlían varð heimsmeistari ungmenna á árinu þar sem hann hjó nærri Íslandsmetinu í opnum flokki og sló Íslandsmetið í bekkpressu í opnum flokki.
 
Íþróttakona Reykjavíkur 2015 er sundkonan Eygló Ósk Gústafsdóttir úr Sundfélaginu Ægi. Eygló vann í haust til tveggja bronsverðlauna á Evrópumeistaramótinu í 25m laug, sló Norðurlandametið í 200m baksundi fjórum sinnum á árinu og hefur tryggt sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum 2016.
 
Íþróttalið Reykjavíkur 2015 er lið Ármanns í áhaldafimleikum kvenna sem vann bikarmeistaratitil á árinu.
 
Tólf einstaklingar og ellefu lið frá níu félögum voru verðlaunuð fyrir frábæran árangur á árinu 2015 í dag. Íþróttafólkið og íþróttafélögin sem að liðunum standa fengu bæði áletraða verðlaunagripi og peningastyrk í verðlaun en heildarupphæð styrkjanna var 3.350.000 krónur. Íþróttabandalag Reykjavíkur og Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur veittu styrkina.
 

Liðin sem fengu verðlaun fyrir árangurinn á árinu 2015:

 •          Ármann bikarmeistarar í liðakeppni í áhaldafimleikum
 •          GR Íslandsmeistarar í Sveitakeppni karla í golfi
 •          ÍR Íslandsmeistarar í karlaflokki í kumite
 •          ÍR Íslandsmeistarar í keilu karla og kvenna
 •          Júdófélag Reykjavíkur bikarmeistarar í sveitakeppni karla og kvenna
 •          KR Íslandsmeistarar í körfuknattleik karla
 •          KR Íslandsmeistarar liðakeppni kvenna í borðtennis
 •          TBR Íslandsmeistarar í liðakeppni beggja kynja í badminton
 •          Valur bikarmeistarar í knattspyrnu karla
 •          Víkingur Íslandsmeistarar í liðakeppni karla í borðtennis
 •          Þórshamar Íslandsmeistarar í karlaflokki í kata
Einstaklingarnir sem fengu verðlaun fyrir árangurinn á árinu 2015:
 •          Aníta Hinriksdóttir, ÍR            
 •          Anton Sveinn McKee, Sundfélaginu Ægi
 •          Ásdís Hjálmsdóttir, Glímufélaginu Ármanni
 •          Ásgeir Sigurgeirsson, Skotfélagi Reykjavíkur
 •          Eygló Ósk Gústafsdóttir, Sundfélaginu Ægi
 •          Helgi Sveinsson, Glímufélaginu Ármanni
 •          Irina Sazonova, Glímufélaginu Ármanni
 •          Jón Margeir Sverrisson, Ungmennafélaginu Fjölni
 •          Júlían Jóhann Karl Jóhannsson, Glímufélaginu Ármanni
 •          Pawel Ermolinskij, KR
 •          Teitur Árnason, Hestamannafélaginu Fáki
 •          Þormóður Jónsson, Júdófélagi Reykjavíkur
Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson og formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur, Ingvar Sverrisson, afhentu íþróttafólkinu og forsvarsmönnum íþróttafélaganna verðlaunin í dag.
 
Allt frá árinu 1979 hefur stjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur valið Íþróttamann Reykjavíkur og var þetta því í 37.sinn sem hátíðin fór fram. Í ár voru í þriðja sinn kjörin Íþróttakarl og Íþróttakona Reykjavíkur auk þess sem að Íþróttalið ársins í Reykjavík var valið.
 
Fleiri myndir af verðlaunahöfum verður hægt að nálgast á www.ibr.is innan skamms.