Íþróttafélög taki á kynferðislegu áreiti

Íþróttir og útivist Mannlíf

""

Fulltrúar Íþrótta- og tómstundaráðs fjölluðu um frásagnir íslenskra íþróttakvenna af ofbeldi, sem voru birtar undir myllumerkinu metoo, á fundi sínum í síðustu viku. 

Á fundi  ráðsins var samþykkt svohljóðandi bókun:

 Íþrótta- og tómstundaráð leggur áherslu á mikilvægi þess að Íþróttabandalag Reykjavíkur og þau íþróttafélög sem fá framlög samkvæmt samningi við Reykjavíkurborg muni bregðast við þessum frásögnum og eins leggja fram áætlun um hvernig verði unnið úr þessari stöðu. Þá mun íþrótta- og tómstundaráð framvegis beita sér fyrir þvi að íþróttafélög skili inn áætlun um verkferla og aðgerðir gegn hvers kyns ofbeldi eins og einelti, kynferðisafbrotum og kynferðislegu og kynbundnu áreiti.

Fund ráðsins sat enn fremur Ingvar Sverrisson, formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur, sem áheyrnarfulltrúi.  Ingvar sagði að það hafi markvisst verið unnið með íþróttafélögum í Reykjavík á undanförnum árum að því að koma í veg fyrir og uppræta hvers kyns kynferðisofbeldi í starfi félaganna.

 Aðgangur borgarbúa, sérstaklega barna og unglinga, að íþróttastarfi sé mikilvægur þáttur í daglegu lífi hverrar fjölskyldu og því nauðsynlegt að öryggi allra verði tryggt í því starfi sem þar er unnið.  Allir, jafnt ungir sem aldnir, konur eða karlar, eigi að vera óhultir í íþróttastarfi og leiki einhver vafi á að svo sé ekki verði íþróttaforystan að bregðast við því á ábyrgan hátt. 

 Ingvar sagði jafnframt:

 „ÍBR mun bregðast strax við frásögnum sem komið hafa fram að undanförnu um kynbundið ofbeldi, kynferðisáreiti og einelti innan íþróttahreyfingarinnar með því að efla enn frekar aðstoð við félögin í borginni. Það er mikilvægt að það verði gert í samstarfi við Reykjavíkurborg og þeim stofnunum samfélagsins sem geta aðstoðað við að móta betri ferla til að bregðast við þegar upp koma atvik en ekki síður til að koma í veg fyrir að atvik sem þessi komi upp í starfinu.“