Innritun í grunnskóla einfölduð
Borgarráð hefur samþykkt breyttar reglur um skólahverfi, umsókn og innritun í grunnskóla borgarinnar, sem einfalda upphaf skólagöngu barna. Með breytingunni er gert ráð fyrir að foreldrar barna sem sækja hverfisskóla þurfi eingöngu að staðfesta skólavist þeirra.
Með nýjum reglum er áherslan á að gera umsóknarferli vegna innritunar í grunnskóla aðgengilegra og tryggja upplýsingamiðlun til foreldra. Foreldrar og forsjáraðilar staðfesta rafrænt skráningu barns í grunnskóla og ekki þarf að sækja um enda eru börn á aldrinum 6 til 16 ára skólaskyld.
Tilkynning er send til foreldra/forráðamanna um hvenær hægt er að staðfesta skráningu eða skrá nemendur í 1. bekk grunnskóla. Þegar tilkynning hefur borist geta foreldra/forráðamenn farið inn á Mínar síður á þjónustuvef Reykjavíkur og staðfest skráningu í grunnskóla eða sótt um annan skóla en hverfisskóla. Ef nemandi fer í hverfisskóla fæst staðfesting um skráningu í skólann strax.
Umsókn um aðra skóla en hverfisskóla
Ef sótt er um annan skóla en hverfisskóla Þurfa foreldrar/forráðamenn að sækja sérstaklega um. Umsókn er afgreidd þegar fyrir liggur fjöldi nemenda sem hefur lögheimili í viðkomandi skólahverfi og hefur valið skólann. Foreldrar og forráðamenn sem sækja um í sjálfstætt reknum grunnskólum þurfa að taka það fram í umsóknarferlinu.